Algjör mistök að klæða sig of sexý

Egill Fannar Halldórsson.
Egill Fannar Halldórsson. ljósmynd/aðsent

Egill Fannar Halldórsson er 24 ára ferðabloggari og einn stofnanda ferðaþjónustufyrirtækisins Wake Up Reykjavík sem að sérhæfir sig í því að sýna ferðamönnum höfuðborgina á eins skemmtilegan hátt og mögulegt er.

„Við teljum okkur einfaldlega vera skemmtilegasta ferðaþjónustufyrirtækið á Íslandi,“ segir Egill um Wake Up Reykjavík sem að hann stofnaði ásamt Daníel Andra Péturssyni. „Þetta gengur í raun út á sérstaka matar-, bjór- og næturlífstúra þar sem við leyfum gestum okkar að upplifa Reykjavík í gegnum þessar mismunandi senur, hvert sem það er í gegnum íslenskan mat, bjór eða djamm til dæmis.“

Egill heldur einnig úti skemmtilega blogg og Instagram-síðu þar sem að hann er duglegur að birta fallegum myndum af ferðalögum sínum um Ísland og heiminn allan. Á bloggsíðu sinni gefur hann lesendum sínum allskyns ráð fyrir ferðalög eins og hvernig skal skipuleggja sig og hvar sé best að borða.

Þar sem Egill er mjög ferðavanur ákváðum við hjá Smartlandi að spyrja hann hvernig sé best að undirbúa sig fyrir stærstu ferðahelgi Íslands, verslunarmannahelgina.

Egill hefur ferðast langmest um Suðurlandið en er að skipuleggja …
Egill hefur ferðast langmest um Suðurlandið en er að skipuleggja ferð um Vestfirði í ágúst.

Hægt er að fylgjast með Agli á Instagram hér

Hvert ert þú að fara um verslunarmannahelgina?

Það er náttúrulega alveg hræðilegt að segja frá því hér en ég verð heima í Reykjavík á þessari mestu ferðahelgi ársins. Ég er sem betur fer búinn að ná að ferðast þokkalega mikið innanlands í sumar en ég ætla að leyfa samstarfsfélögum mínum að dansa frá sér allt vit í Vestmannaeyjum á meðan ég sé um reksturinn í borginni á meðan. Ég mun keyra í gang góða stemmingu á veitingastöðum og börum borgarinnar með gesti frá hinum ýmsu heimshornum á meðan!

Hvað er uppáhaldsstaðurinn þinn á Íslandi?

Vá! Þetta er ekkert lítið erfið spurning og úr gjörsamlega óteljandi stöðum að velja. Ég ferðast lang mest um Suðurlandið þar sem það er bæði alveg pakkað af perlum en líka svo aðgengilegt frá Reykjavík. Ég er hvað mest spenntur fyrir Vestfjörðunum núna og er að skipuleggja ferð þangað í Ágúst en annars þykir mér Vestmannaeyjar líka vera einn alfallegasti staður landsins, svona fyrir lætin á Þjóðhátíð alla vega!

Hver er þín besta minning frá verslunarmannahelgi?

Besta verslunarmannahelgar minningin mín verður eiginlega án nokkurs vafa að vera Þjóðhátíð í Vestmanneyjum 2013. Þá var rosalega margt, rosalega gott í gangi. Í fyrsta lagi var ég að fara á Þjóðhátíð í fyrsta skiptið sem var náttúrulega alveg ógleymanlega upplifun. Auk þess var ég yfir helgina að hrista kokteila og elda á veitingastaðnum Slippnum í Vestmannaeyjum í frábærum félagsskap. Síðast en ekki síst var ég farinn að stinga saman nefjum með kærustunni minni, henni Tönju Ýr, á þessum tíma svo við vorum mikið að syngja og dansa saman í brekkunni. Það er klárlega það sem er eftirminnilegast frá helginni.

Egill segir mikilvægt að vera í gammósíum, góðri peysu og …
Egill segir mikilvægt að vera í gammósíum, góðri peysu og ullarsokkum í útilegum.

Hverju klæðist þú í útilegum?

Mér finnst einfaldlega ómögulegt að fara í útilegu og vera ekki í góðri lopapeysu. Það er bara eins íslenskt og það gerist. Annars er þetta þunn lína þar sem þú þarft alltaf að klæða þig vel en á sama tíma langar þig kannski að líta alveg þokkalega út. Ég er að vinna mikið með fallega lopapeysu, Cintamani-regnjakka til þess að skýla fyrir vindi og rigningu, gamlar gallabuxur sem ég er ekki hræddur við að skíta út og gönguskó. Svo hika ég ekki við að hoppa í innanundirgammósíur (er þetta virkilega orð?) og föðurland þegar það byrjar að kólna. Það eru einhvern veginn önnur lögmál sem gilda um það hvað er sexý og hvað ekki þegar maður er í útilegu.

Hver er þín uppáhaldsyfirhöfn?

Uppáhalds yfirhöfnin mín verður að vera einn svakalegur jakki sem ég keypti í Marokkó fyrr á þessu ári. En fyrir útilegur þá gríp ég oftast í gulan Cintamani-regnjakka sem er skjól fyrir öllum veðrum og vindum!

Hvernig klæðir maður sig smart en líka eftir veðri?

Eins og ég kom létt inn á hér fyrir ofan þá er mikilvægt að vera með góðar gammósíur og föðurland en ullarsokkar eru líka algjör nauðsyn. Sjálfum finnst mér svolítið lúðalegt að vera með húfu en í útilegum getur það alveg breytt kvöldinu að vera með eitthvað til að loka hitann inni í líkamanum og búa til ullarsamloku með ullarsokkum og húfu!

Uppáhaldsyfirhöfn Egils í útilegum er gulur regnjakki frá Cintamani.
Uppáhaldsyfirhöfn Egils í útilegum er gulur regnjakki frá Cintamani.

Hvað er mikilvægast að taka með sér í útilegur?

Lopapeysu, áfengi sem hægt að drekka ekki kalt og ótrúlega góðan mat sem hægt er að hafa tilbúinn hvenær sem er. Það eru alltaf allir svangir í útilegu!

Hver eru mestu mistök sem maður getur gert í útilegum?

Það eru hræðileg mistök að klæða sig rosalega sexý en verða svo kalt þegar það tekur að dimma og eiga ekkert hlýtt eða vera hræddur um að skíta út fínu fötin. Það er órjúfanlegur hluti af útilegu að vera úti í smá kulda og að sitja í grasinu svo það er mikilvægt að klæða sig eftir því.

Hver er uppskriftin á hinni fullkomnu verslunarmannahelgi?

Fullkominni verslunarmannahelgi verður að vera eytt úr bænum og lykilhráefnið er alltaf að hafa gott fólk í kringum sig. Hvort sem það eru vinir, maki eða fjölskylda.

Egill og kærastan hans hún Tanja Ýr.
Egill og kærastan hans hún Tanja Ýr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál