Einnota myndavél heitasti fylgihluturinn

Gigi Hadid tók myndir á einnota myndavél á Met Gala …
Gigi Hadid tók myndir á einnota myndavél á Met Gala í byrjun maí. AFP

Á öld snjallsímanna er erfitt að hugsa sér að jafn ófullkominn hlutur eins og einnota myndavélar komist aftur í tísku. Þær hafa hins vegar gert það. Gleymið öllum forritunum sem gera myndirnar eins og þær séu 30 ára gamlar og kaupið ykkur einnota myndavél.

Fyrirsætan Gigi Hadid komst í fréttirnar í síðasta mánuði þegar hún tók upp einnota myndavél á Met Gala og smellti af nokkrum myndum. Hadid virðist svo hafa framkallað þær í snarhasti því myndirnar voru komnar í story hjá henni á Instagram nokkru síðar. 

Önnur fyrirsæta, Cindy Bruna, gerði slíkt hið sama í vikunni þegar hún smellti af nokkrum myndum á CFDA-verðlaunahátíðinni.

Þessi aðferð skapar nostalgíu hjá þeim sem muna eftir því að eiga myndavélar, og gera það jafnvel enn. Fyrir yngri kynslóðina getur þetta verið skemmtilegur lærdómur því ekki er hægt að velja þá bestu af 25 myndum af sama efninu (nema þú kaupir margar myndavélar í einu).

Þetta er heitasti fylgihluturinn í dag.
Þetta er heitasti fylgihluturinn í dag.

Einnota myndavélar skapa líka ákveðið vandamál fyrir þá sem vilja vera í beinni á samfélagsmiðlum, en áður en hægt er að birta myndir af myndunum á samfélagsmiðlum þarf að láta framkalla þær.  Fyrir þá sem eru að velta fyrir sér hvort enn sé hægt að framkalla myndir af filmu, þá já, það er enn hægt. 

Ólíkt snjallsímunum þá geta einnota myndavélar verið fyrirferðamiklar og komast því kannski ekki í lítil veski. Hafið þó ekki áhyggjur því þetta er heitasti fylgihluturinn í dag.

Cindy Bruna var með einnota myndavél meðferðis á CFDA-verðlaunahátíðinni.
Cindy Bruna var með einnota myndavél meðferðis á CFDA-verðlaunahátíðinni. AFP
mbl.is