Gifti sig í kjól sem er ættardjásn

Tinna og Jón Björgvin á brúðkaupsdaginn.
Tinna og Jón Björgvin á brúðkaupsdaginn.

Tinna Bessadóttir viðburðastjóri og eigandi kaffihússins í Hellisgerði gifti sig í einstökum brúðarkjól sem var fermingarkjóll ömmu hennar. Tinna giftist eiginmanni sínum, Jóni Björgvini Björnssyni, hinn 30. janúar árið 2016. Þau eiga fimm börn saman og saumaði hún sjálf hálstau og kjól fyrir brúðkaupið.

Brúðarkjóll Tinnu var fermingarkjóll ömmu hennar, Ingibjargar Ingimundardóttur.

„Amma fermdist í kjólnum árið 1949 en mamma mín, Agnes, systir hennar og mágkona giftu sig einnig í kjólnum. Kjóllinn er látlaus með síðum ermum og háu hálsmáli. Það eru tveir fínir blúnduborðar saumaðir á hann niður eftir kjólnum en langamma saumaði útsaum með perlum í mittið og neðst á kjólinn.

Við giftum okkur í sjö stiga frosti á fallegum degi í janúar og kjóllinn hentaði mjög vel í það.

Amma var ofsalega ánægð með að ég hafði beðið um að fá að vera í kjólnum hennar en hún lést í janúar á síðasta ári. Það er ljúft að eiga þessa minningu með henni og gaman sjá myndirnar af okkur fjórum í þessum sama kjól því hann er eins og sitthvor flíkin á okkur öllum.“

Brúðarkjóllinn átti að vera fjárfesting

Brúðarkjóllinn var keyptur notaður árið 1949 og átti að vera fjárfesting.

„Foreldrar ömmu áttu fjórar dætur. Það átti að nota kjólinn fyrir allar stelpurnar en þegar önnur dóttirin átti að fermast voru komnir fermingarkyrtlar og þá var ekki lengur þörf á því að vera í síðum hvítum kjól í fermingunni. Þá var kjóllinn settur í geymslu.

Það var ekki fyrr en seinna, þegar langamma mín deyr, þá er mamma mín orðin 12 ára og biður hún þá um að fá að eiga kjólinn því hún hafi hugsað sér að gifta sig í honum. Foreldrar mínir gifta sig svo árið 1974.

Amma Tinnu, Ingibjörg Ingimundardóttir, fermdist í kjólnum á sínum tíma.
Amma Tinnu, Ingibjörg Ingimundardóttir, fermdist í kjólnum á sínum tíma.

Ég skipti svo um kjól fyrir veisluna og var í kjól sem ég keypti í Cavalli í Feneyjum. Ég var aðeins stressuð yfir að hella óvart rauðvíni yfir kjólinn og gera þennan erfðagrip skítugan. Það voru að sjálfsögðu bara óþarfa áhyggjur.“

Mælir þú með að fólk sé í kjól sem á sér sögu?

„Já ég geri það. Mér þykir ótrúlega vænt um að hafa fengið þann heiður að fá að deila þessari dýrmætu flík með mömmu minni, ömmu og frænkum. Ég veit líka að kjóllinn er klassískur og á eftir að eldast vel.“

Ætluðu í upphafi að gifta sig á Ítalíu

Tinna bjó á Ítalíu rétt við Feneyjar um tíma og var upphaflega planið að gifta sig þar.

„Við höfðum hugsað okkur að gifta okkur á Ítalíu sumarið 2015. Við vorum búin að bóka kastala þar sem allt var innifalið en ákváðum svo að flytja frekar aftur til Íslands.

Jón Björgvin vinnur mikið á Ítalíu og rétt fyrir jólin árið 2015 erum við bæði í Feneyjum og ákveðum þá að drífa bara í brúðkaupinu. Við ákváðum að velja dagsetningu sem var fimm vikum seinna. Við gerðum áætlanir um allt tengt brúðkaupinu, sendum út alla pósta og gerðum allar pantanir á tveimur kvöldum. Við keyptum partíkjólinn minn og jakkafötin á hann, brúðarmeyjakjólana á tvær yngstu stúlkurnar og jakkaföt á soninn.

Svo liðu jólin og restin af því sem þurfti að gera var gerð tveimur til þremur vikum fyrir brúðkaupið.“

Tinna gerði allar skreytingar sjálf fyrir brúðkaupið.

„Ég gerði brúðarvöndinn minn og allar blómaskreytingar og brúðartertuna.

Þemað í brúðkaupinum var ævintýralegur vetur (e. Winter Wonderland) þar sem það átti mjög vel við árstíðina sem tók við þarna strax eftir jólin. Það var nóg til af fallegu skrauti á þessum tíma. Ég saumaði einnig kjólinn á næstelstu stelpuna okkar og gerði eins hálstau á alla herramennina mína; soninn, eiginmanninn og feður okkar. Mér fannst það fallegt.

Annars búum við svo vel að vera umkringd matreiðslumönnum þar sem feður okkar beggja og bróðir minn eru kokkar svo að þeir sáu algerlega um matinn. Ég er viðburðastjóri í dag þó svo að ég hafi ekki unnið við það þá. Svo er ég lærður fatahönnuður og er með mjög myndrænt minni, sem hjálpaði mér að sjá þetta allt skýrt fyrir mér. Þegar maður veit hvað maður vill er ekki svo erfitt að framkvæma hlutina.“

Að gera hlutina sjálfur er skemmtilegt

Tinna segir bestu brúðargjöfina viðveru fólksins í kringum mann.

„Við kunnum að meta að fá rúmföt og fleira í þeim dúr, þar sem við bjuggum saman og áttum allt fyrir heimilið. Fallegir hlutir sem maður eyðir ekki endilega í sjálfur gleðja þannig brúðhjón að mínu mati.“

Tinna mælir með að gera hlutina sjálfur fyrir brúðkaupið.

„Það er ótrúlega gaman að gera hlutina sjálfur og einnig gott að fá hjálp þó svo að maður geti alveg gert það sjálfur. Það skiptir líka máli að vera vel hvíldur fyrir daginn. Ég klikkaði á því. Svo ef ég mætti gefa brúðhjónum ráð núna þá væri það helst að missa sig ekki í smáhlutunum. Brúðkaup á að gefa ljúfar minningar og það er gott að minna sig á að eftir ár eða tvö skipta hlutir eins og litatónninn á hvítu servíettunni ekki neinu máli.“

Tinna Bessadóttir ásamt móður sinni á brúðkaupsdaginn.
Tinna Bessadóttir ásamt móður sinni á brúðkaupsdaginn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál