Þorvaldur: Gaman að sjá færsluna

Fram er aðeins með eitt stig eftir sex leiki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir að liðið tapaði fyrir KR í kvöld 2:1 á heimavelli. Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram ræddi við mbl.is að leik loknum.

„Við fáum ekkert úr úr leiknum þrátt fyrir að spila ágætlega á köflum. Við vorum að ná ágætis færslum sem við erum búnir að vera að vinna í. Það var mjög gaman að sjá það.“

Framliðið hefur í undanförnum leikjum í deildinni fengið á sig mörk í síðari hálfleik án þess að svara fyrir sig. Til að mynda gegn Stjörnunni þegar þeir skoruðu fjögur mörk. Þorvaldur gaf lítið fyrir það.

„Ég er ekki hér til að vera sammála þér eða ekki. Það sem skiptir máli er að við vorum með „control“ á leiknum í fyrri hálfleik. Auðvitað dettum við neðar í seinni án þess þó að þeir séu að skapa sér færi að einhverju ráði.“

Þá sagði Þorvaldur að leikmenn KR hefðu komist upp með óþarfa brot á miðjum vellinum. Aðspurður hvort hann hefði verið ósáttur með dómgæsluna sagði hann svo ekki vera nú frekar en áður.

Þorvaldur Örlygsson hefur ekki enn náð þremur stigum með liði …
Þorvaldur Örlygsson hefur ekki enn náð þremur stigum með liði sínu Fram á þessari leiktíð. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina