KA sigraði ÍA - Jafnt á Selfossi

Atli Sveinn Þórarinsson skoraði fyrir KA í kvöld.
Atli Sveinn Þórarinsson skoraði fyrir KA í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveimur leikjum var að ljúka í 1. deild karla í knattspyrnu nú rétt í þessu. KA-menn gerðu góða ferð á Akranes og sigruðu þar heimamenn 4:2 í miklum markaleik en öllu minna fjör var í markalausu jafntefli Selfoss og Grindavíkur.

KA-menn komust fyir strax á 9. mínútu með marki frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. Skagamenn voru hins vegar fljótir að jafna leikinn en þar var að verki Garðar Gunnlaugsson einungis þremur mínútum síðar með sitt 10 mark í deildinni.

Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði KA-manna kom KA-mönnum í 2:1 en markið kom eftir hornspyrnu. KA komst í 3:1 snemma í síðari hálfleik, á 49. mínútu með marki frá Arsenj Buinickij en markið var hans sjötta í sumar. Skagamenn neituðu hins vegar að gefast upp og uppskáru sitt annað mark í leiknum en markið skoraði Jón Vilhelm Ákason beint úr aukaspyrnu á 80. mínútu. 

Hallgrímur Mar Steingrímsson kláraði hins vegar leikinn fyrir norðanmenn með sínu öðru marki í deildinni og staðreyndin því mikill baráttusigur KA-manna. Með sigrinum kemst KA nær toppnum stigalega séð, hafa 19 stig en eru áfram í fjórða sæti deildarinnar. Þeir nálgast hins vegar Skagamenn sem eru í 2. sæti deildarinnar með 21. stig.

Grindavík og Selfoss voru fyrir umferðina í 9. og 10. sætinu og þar verða þau áfram eftir 11. umferðina. Selfyssingar hafa 12 stig í 10 sætinu á meðan Grindvíkingar eru í 9. sætinu, einnig með 12 stig. Úrslitin verða teljast líklega vonbrigði fyrir Grindvíkinga sem höfðu verið á ágætu skriði og sigrað tvö síðustu leiki sína, en liðinu var spáð upp úr deildinni fyrir tímabilið. Það bendir fátt til þess að sú spá gangi eftir þegar mótið er hálfnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert