Grátlegt að niðurstaðan sé eitt stig

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var svekktur með 1:1-jafntefli liðsins við Víking í kvöld og sagði hreint grátlegt að hafa einungis fengið eitt stig úr leiknum.

„Víkingar fengu vissulega einhver upphlaup undir lokin en við áttum að vera komnir yfir. Við fengum flott tækifæri og komum grimmir inn í sérstaklega seinni hálfleikinn svo það er grátlegt að niðurstaðan sé bara eitt stig,“ sagði Gunnlaugur í samtali við mbl.is eftir leikinn. Víkingar komust yfir en eftir taktískar breytingar Skagamanna jöfnuðu þeir metin.

„Það virkaði og með því kom aukinn kraftur og með jöfnunarmarkinu kom meira sjálfstraust í liðið. Við vorum einbeittari og vorum mjög grimmir. Þeir áttu í miklu basli með okkur en niðurstaðan er eitt stig og ég er ekki sáttur,“ sagði Gunnlaugur sem hefði viljað vera með fleiri stig en þau fjögur sem eru komin í pokann eftir þessa fyrstu þrjá leiki.

„Það er margt jákvætt í okkar leik og margt sem við getum byggt á, svo við förum bara kokhraustir í Fjörðinn í næsta leik og mætum þar FH,“ sagði Gunnlaugur í samtali við mbl.is, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is