Katrín er ökklabrotin – „Alveg ömurlegt“

Katrín Ómarsdóttir í leik með KR gegn ÍBV á dögunum …
Katrín Ómarsdóttir í leik með KR gegn ÍBV á dögunum í 1. umferð Pepsí-deildarinnar. Hún rennir sér hér fyrir Sigríði Láru Garðarsdóttur. Ljósmynd/Sigfús

„Ég er svona ennþá að átta mig á þessu, þetta er ótrúlega leiðinlegt,“ sagði knattspyrnukonan Katrín Ómarsdóttir, leikmaður KR, við mbl.is en hún er ökklabrotin.

„Ég sneri mig illa á æfingu í fyrradag, það var blautt úti og ég lenti eitthvað illa þegar ég var að skjóta. Ég þarf líklega ekki að fara í aðgerð, en fæ frekari upplýsingar um það í fyrramálið,“ sagði Katrín.

Hún gekk til liðs við uppeldisfélag sitt KR í vetur, eftir að hafa verið sjö ár í atvinnumennsku.

„Ég var búin að hlakka mikið til að spila með KR en það er þó jákvætt að ég næ líklega seinni hluta tímabilsins. Venjulega eru þetta sex vikur í gipsi og sex vikur í endurhæfingu, það er svona venjan. En svo veit maður ekkert hvernig það verður nákvæmlega,“ sagði Katrín.

Hún á að baki 69 landsleiki fyrir Íslands hönd og nú er ljóst að hún verður ekki í baráttu um sæti í landsliðshópnum sem fer í lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi í sumar.

„Mér sýnist það nú. Þetta er eiginlega alveg ömurlegt, en svona er þetta bara,“ sagði Katrín Ómarsdóttir við mbl.is.

Katrín Ómarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir eru báðar komnar í KR …
Katrín Ómarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir eru báðar komnar í KR eftir að hafa leikið lengi erlendis í atvinnumennsku. Þær eru nú báðar alvarlega meiddar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert