„Þeir voru heppnir í lokin“

Anté Cacic, þjálfari Króata.
Anté Cacic, þjálfari Króata. mbl.is/Hanna

Ante Cacic, þjálfari Króatíu, hóf fréttamannafund eftir leik Íslands og Króatíu á því að óska Íslendingum til hamingju með sigurinn. Hörður Björgvin Magnússon skoraði sigurmark Íslendinga á 89. mínútu leiksins.

Cacic sagði að allt hefði bent til þess að 0:0-jafntefli yrði niðurstaðan og að bæði lið hefðu skapað fá færi. „Við töluðum mikið um að verjast föstum leikatriðum en þeir skora mark eftir horn,“ sagði Cacic og bætti við að hans menn hefðu skapað lítið í leiknum.

„Þeir voru orkumeiri og unnu marga 50/50 bolta. Þeir voru heppnir í lokin og unnu mikilvægan sigur,“ sagði króatíski þjálfarinn brúnaþungur á svip.

Hann kvaðst ekki vera hissa á því að Ísland hefði spilað með þrjá miðjumann og einn sóknarmann en Gylfi Þór Sigurðsson lék sem fremsti miðjumaður og Alfreð Finnbogason var eini sóknarmaður Íslands. „Þeir spiluðu svipað í Zagreb,“ sagði Cacic.

„Ég held að við höfum gert of mörg tæknileg mistök og við vorum ekki nógu ákveðnir í baráttunni,“ sagði þjálfarinn og bætti við að möguleiki liðsins á sæti á HM í Rússlandi væri ekki minni þrátt fyrir þetta tap en Króatía er enn í efsta sæti I-riðils undankeppninnar.

„Eftir leikinn gegn Úkraínu sagði ég að ekkert væri unnið og það væri sama staða núna. Við erum nánast á byrjunarreit, fjögur lið hafa tapað einum leik en við ráðum örlögum okkar sjálfir.“

Cacic sagði að það væri augljóst að einhverjir leikmanna hans væru þreyttir eftir langt tímabil. „Luka Modric og Mario Mandzukic voru að spila í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir viku. Við söknum nokkurra leikmanna og enn aðrir kláruðu sitt tímabil fyrir mánuði. Þetta er því ekki fullkomin tímasetning fyrir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert