Snerist ekki um margar milljónir

Eftir tæpan mánuð geta FIFA-spilarar í fyrsta sinn spilað sem …
Eftir tæpan mánuð geta FIFA-spilarar í fyrsta sinn spilað sem Gylfi Þór Sigurðsson í bláu landsliðstreyjunni. mbl.is/Golli

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu verður í næstu fjórum útgáfum af FIFA-tölvuleiknum. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir í samtali við mbl.is að samningar hafi náðst við tölvuleikjaframleiðandann EA Sports um þetta.

Eins og fram kom í dag verður íslenska karlalandsliðið í FIFA 18, næstu útgáfu þessa vinsælasta íþróttatölvuleiks heims, sem gefinn verður út í lok mánaðarins. Strákarnir okkar verða svo einnig í FIFA 19, FIFA 20 og FIFA 21:

„Okkar víkingaklapp og liðið sjálft er orðið heimsfrægt, og við viljum bara boða fagnaðarerindið og vera þátttakendur á stærsta sviði íþróttatölvuleikja, sem FIFA 18 er. Við erum svo líka með í Pro Evolution-tölvuleiknum áfram. Þetta er bara jákvætt og skemmtilegt,“ sagði Guðni við mbl.is í dag.

„Við erum að upplifa góða tíma og frábært gengi hjá íslenska karlalandsliðinu og ég held að það sé um að gera að nýta það til góðs og vera með í FIFA 18. Þetta er leikur sem er gríðarlega vinsæll á Íslandi og með tugi milljóna spilara, eða jafnvel á annað hundrað milljónir, um allan heim skilst mér. Markaðslega held ég því að þetta sé jákvætt, og þetta er gaman fyrir okkar stuðningsmenn og leikmennina sjálfa,“ sagði Guðni.

Kvennalandsliðið ekki með

Kvennalandslið Íslands verður ekki í FIFA 18. Í næstsíðustu útgáfu leiksins, FIFA 16, var í fyrsta sinn hægt að spila leikinn sem kvennalið og voru þá 12 kvennalandslið í leiknum. Í leiknum sem kom út í fyrra, FIFA 17, voru þau enn aðeins 14 talsins. Þrýsti KSÍ á að kvennalandslið Íslands yrði með nú?

„Það var að sjálfsögðu rætt, og reynt að fá það í gegn. Maður myndi gjarnan vilja að bæði kvennalandsliðið og íslensku deildirnar væru inni í leiknum. En við erum auðvitað með örmarkað hér og kvennaboltinn er ekki eins vinsæll, svo það er erfiðara um vik að koma þessu í gegn. Við vildum að sjálfsögðu að það gengi upp,“ sagði Guðni.

Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson. mbl.is/Golli

Milljónir sem við vorum ekki með áður

Forveri Guðna í starfi, Geir Þorsteinsson, hafnaði fyrir hönd KSÍ samningi við EA Sports um að Ísland yrði með í FIFA 17 í fyrra. Taldi Geir þá upphæð sem fyrirtækið bauð ekki nægilega háa, og sagði hana aðeins hafa verið á milli 1-2 milljónir króna. Bauð EA Sports betur núna?

„Þetta telur nú ekki í mörgum milljónum, en þetta eru samt milljónir sem við vorum ekki með áður. Ég tel að það sé akkur af þessu, bæði fyrir okkar stuðningsmenn og áhugafólk, og í markaðsstarfinu. Við fáum einhverjar milljónir í kassann, sem og vegna Pro Evolution-tölvuleiksins, og svo eru endurskoðunarákvæði varðandi þetta. Ég taldi mikilvægt að við kæmum karlalandsliðinu inn og gætum svo mögulega byggt ofan á það í framtíðinni, bæði hvað varðar kvennalandsliðið, deildirnar hér heima og ef vel gengur þá gjaldið sem um ræðir. Þetta snerist ekki um margar milljónir, en það verður hægt að nýta upphæðina til góðra hluta,“ sagði Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert