Hef ekki heyrt þessa gagnrýni

Ólafur Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld.
Ólafur Kristjánsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari FH, var mjög ánægður með sína menn eftir 3:1-sigur á KA í 4. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í dag. FH-ingar voru sterkari aðilinn og voru lokatölurnar sanngjarnar. 

„Úrslitin voru mjög sanngjörn í kvöld. Þetta var ekki eins kaflaskipt og sumir leikir hjá okkur. Við vorum þéttari og beinskiptari. Eftir fyrsta kortérið fórum við að spila út í svæðið á Atla, Jónatan og Lennon. Eftir það fengum við færin. Við töluðum um að halda því áfram í seinni hálfleik og herja á þá. Þeir eru með líkamlega sterkt lið á meðan við vorum með léttfeta í dag sem eiga auðveldara með að hlaupa.“

Einhverjir hafa gagnrýnt spilamennsku FH hingað til en þrátt fyrir það er liðið með níu stig eftir fjóra leiki.

„Ég hef ekki heyrt þessa gagnrýni en ég er ánægður með stigin og spilamennskuna. Stígandinn hefur verið góður. Á móti Grindavík kláruðum við þétt lið, 1:0, það eru góðir sigrar. Við töpuðum verðskuldað á móti Breiðabliki en vinnum svo góðan sigur í Egilshöll. Við erum búnir að prófa allar aðstæður. Við ráðum við flest og níu stig eftir fjóra leiki með stíganda í spilamennskunni. Við verðum að halda áfram og loka eyrunum fyrir gagnrýnisröddum utan frá. Leikmenn gagnrýna hver annan hins vegar, annað væri út í kú.“

Eddi Gomes spilaði síðustu tíu mínúturnar í dag. Hann er að jafna sig á meiðslum.  

„Hann er tíu mínútna maður. Hann spilaði síðustu tíu og er allur að koma. Hann er ekki 90 eða 60 mínútna maður en hægt og bítandi nálgast hann nær byrjunarliðinu,“ sagði Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert