Ánægð að hafa komið aftur til Blika

Samantha Lofton.
Samantha Lofton. mbl.is/Árni Sæberg

„Fullt hús stiga er allt sem við getum óskað eftir,“ sagði Sam Lofton, bakvörður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur á KR í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Það er alltaf gott að ná þremur stigum, sama hversu ljótur leikurinn er. Við erum því mjög sáttar,“ sagði Lofton, en þrátt fyrir mikla pressu Blika komu bæði mörkin eftir föst leikatriði. Það seinna þegar skammt var eftir og því var leikurinn í raun enn opin lengi vel.

„Þær héldu alltaf áfram að reyna og eiga hrós skilið fyrir það. Þetta var því aldrei öruggt en það var gott að ná markinu í lokin sem innsiglaði sigurinn. Þetta var erfið barátta, en ég var aldrei neitt stressuð. Ég er með mikla trú á okkur í vörninni og Sonný í markinu, svo ég var aldrei stressuð heldur frekar vongóð um að við myndum klára þetta. Við áttum það skilið,“ sagði Lofton.

Hún var einnig á mála hjá Blikum í fyrra og kom aftur nú í vor. Fjórir byrjunarliðsmenn eru horfnir á braut í atvinnumennsku síðan þá, en hvað finnst henni um liðið á milli ára?

„Við misstum nokkrar stórstjörnur frá því í fyrra en sem lið þá höfum við staðið þétt saman og spilum vel sem ein heild. Þrátt fyrir þær sem fóru þá erum við að standa okkur mjög vel. Ég er mjög ánægð að hafa komið til baka og mér líður mjög vel hérna,“ sagði Sam Lofton við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert