Dramatískt jafntefli í háspennuleik í Vesturbæ

Björgvin Stefánsson leitar leiða fram hjá leikmönnum FH í dag.
Björgvin Stefánsson leitar leiða fram hjá leikmönnum FH í dag. mbl.is/Árni Sæberg

KR og FH gerðu jafntefli á Alvogen-vellinum í kvöld í afar fjörugum leik sem bauð upp á mikinn hraða á köflum, harðar tæklingar, sannkallað draumamark og tvö mörk í uppbótatíma.

KR-ingar byrjuðu betur og strax á sjöundu mínútu skoraði Kennie Chopart eftir flotta sókn. Pálmi Rafn skallaði boltann innfyrir á Chopart sem kláraði vel fram hjá Gunnari í markinu.

Á heildina litið var KR betra í fyrri hálfleik og hefði getað bætt við mörkum í alla veganna tvígang. Undir lok fyrri hálfleiksins batnaði leikur FH-inga aðeins og þeir fengu nokkur áhlaup og voru ekki langt frá því að jafna. Fyrri hálfleikurinn var afskaplega fjörugur og hraður. Mikið var um harkalegar tæklingar og dómari leiksins var frekar til sparsamur á spjöldin miðað við áferð leiksins.

Seinni hálfleikurinn var líka hraður en gæðin í vítateigum beggja liða voru oft ekki nægilega góð. Það var ekki fyrr en á 56. míútu að gæðin gerðu vart við sig þegar Steven Lennon jafnaði leikinn með sannkölluðu draumamarki af meira en 30 metra færi upp í samskeytin.

Mesta spennan skapaðist svo í uppbótatímanum þegar FH sótti af miklum krafti og átti að fá vítaspyrnu en ekkert dæmt. KR sóttu þá hratt upp völlinn og André Bjerregard skoraði laglegt mark eftir undirbúning Björgvins Stefánssonar og Kristins Jónssonar. Það héldu allir að það yrði sigurmarkið en svo var ekki því á lokamínútu uppbótatímans náði Atli Guðnason að jafna með marki á nærstöng af stuttu færi eftir fyrirgjöf Kristins Steindórssonar.

KR 2:2 FH opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við. Nægur tími eftir.
mbl.is