Þetta er nýr raunveruleiki

Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH.
Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH. mbl.is/Ómar Óskarsson

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði knattspyrnuliðs FH, segir að það séu vissulega vonbrigði að vera ekki í baráttu um Íslandsmeistaratitilinn en FH-ingar þurfi allir sem einn að taka vel á sínum málum.

FH er áfram í baráttu um Evrópusæti eftir 4:0-sigur á KR í Kaplakrika í dag en Íslandsmeistaratitillinn er genginn liðinu úr greipum sem er nýtt fyrir Davíð og hans kynslóð í liði FH sem hefur verið í baráttu um titilinn árlega í fimmtán ár.

„Þetta hefur verið allt öðruvísi en undanfarin ár og að sjálfsögðu vonbrigði að vera ekki að berjast um titilinn. Það var nokkuð sem við ætluðum okkur og við erum með mannskapinn til þess. En hlutirnir hafa ekki gengið upp, við búum við þann veruleika í dag að við erum að berjast um fjórða sætið sem er algjörlega nýtt fyrir okkur,“ sagði Davíð þegar mbl.is spurði hann út í þessa stöðu hjá Hafnarfjarðarfélaginu.

Verðum bara að kyngja því

„En við verðum bara að kyngja því, gera það sem við getum til að ná fjórða sætinu, sem skiptir rosalega miklu máli fyrir félagið og fyrir okkur leikmennina. Evrópuleikirnir eru skemmtilegustu leikirnir, þannig að það er að miklu að keppa fyrir okkur, þrátt fyrir allt. En auðvitað er það nýr raunveruleiki sem við höfum þurft að venja okkur við, að horfa á Stjörnuna og Val spila hálfgerðan úrslitaleik á Íslandsmótinu þar sem við komum ekkert við sögu. Það er nýtt en svo er það bara þannig að það hafa orðið miklar breytingar á okkar liði. Slíkt tekur tíma og við erum enn í þeim fasa að byggja upp á ný.

Við þurftum á þessu að halda, við vorum komnir með þunnan leikmannahóp og þurftum á liðsauka að halda. Við þurfum bara að halda áfram og í svona leik sést að það er eitthvert vit í því sem við erum að gera og við verðum að taka það með okkur. Fyrst þurfum við að reyna að ná þessu fjórða sæti, þar sem KR er ennþá með undirtökin. Hvort sem við náum því eða ekki þurfum við að skoða hvað hægt er að gera betur, laga hlutina, fara í þá vinnu fyrir næsta tímabil - við höfum sem betur fer 7-8 mánuði til þess - en þetta er bara þannig.

Þurfum að sýna að við séum alvöruklúbbur

Það er hundleiðinlegt að vera ekki í toppbaráttu og allt það en það væri eitthvað að manni ef maður héldi að það væri hægt að vera endalaust í áskrift að því. Svona tímar koma, og þá reynir mest á leikmenn, þjálfara, klúbbinn, forráðamenn og stuðningsmenn. Við þurfum öll að sýna úr hverju við erum gerð og koma til baka eftir svona vonbrigðatímabil. Það er ekki eins og FH hafi verið stórveldi fyrir 20 árum, þótt svo hafi verið í 15-16 ár, og við verðum bara að gjöra svo vel og halda áfram að vinna í okkar málum, og sýna að við séum alvöruklúbbur sem getur tekist á við mótlæti jafnt sem meðbyr,“ sagði Davíð.

Um leikinn gegn KR og stóra sigurinn þar sagði Davíð að úrslitin gæfu ekki alveg rétta mynd af leiknum.

Núna small allt hjá okkur

„Nei, leikurinn var alls ekki ójafn eins og tölurnar gætu gefið til kynna. En við náðum að skora snemma, og það sem við gerðum vel í leiknum var að halda KR-ingum frá markinu. Þeir fengu eitt gott færi þar sem Gunnar varði vel, en annars sköpuðu þeir voðalega lítið.

Við erum með þannig gæði í liðinu að ef við höldum liðunum frá markinu okkar og gefum ekki færi eins og við höfum oft gert í sumar sköpum við alltaf hættu. Í þessum leik nýttum við færin okkar, sem er frábært. Oft í sumar höfum við farið illa með tækifærin. Núna small allt hjá okkur og það var eiginlega kominn tími á það,“ sagði Davíð Þór Viðarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert