Þetta verður snúinn leikur

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/RAX

„Það hefur bara gengið vel að ná stelpunum upp úr vonbrigðunum. Það var mjög þungt yfir okkur eftir leikinn á laugardaginn; mikið af tilfinningum og svekkelsi því okkur langaði svo mikið að ná þessu,“ sagði Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í morgun en Ísland mætir Tékklandi í lokaumferð undankeppni HM á Laugardalsvelli á morgun.

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi 2:0 á laugardaginn og missti þar með af möguleikanum á að enda í toppsæti riðilsins og tryggja sér þátttökurétt á HM í Frakklandi á næsta ári. Með sigri gegn Tékkum á morgun mun íslenska liðið nánast örugglega tryggja sér sæti í umspili en fjórar þjóðir fara í umspil um eitt laust sæti á HM.

„Það tók okkur einn dag að jafna okkur á tapinu á móti Þjóðverjunum en seinni partinn í gær voru allir orðnir ferskir og einbeittir og við fórum vel yfir tékkneska liðið. Ísland hefur aldrei unnið Tékkland og við munum sýna tékkneska liðinu alla þá virðingu sem það á skilið. Þetta verður snúinn leikur en að sama skapi viljum við, þið fjölmiðlamenn og stuðningsmenn trúa því að við séum með betra lið en Tékkland. Við verðum að trúa því og fara út á völlinn og spila boltanum betur en við gerðum á móti enn betri andstæðingum á laugardaginn. Á sama tíma verðum við að halda í hugarfarið og varnarleikinn sem við sýndum á móti Þjóðverjum. Ef við náum því trúi ég að við vinnum leikinn,“ sagði Freyr.

„Það er til mikils að vinna. Fyrirfram þegar dregið var í riðla var umspil nokkuð sem við ætluðum okkur að ná en svo komumst við í þá stöðu að geta komist beint á HM með því að vinna riðilinn. Við reyndum og lögðum allt í leikinn á móti Þjóðverjunum en töpuðum einfaldlega fyrir betra liði. Núna er það bara umspilið sem við stefnum á að komast í og ef við skoðum liðin sem verða í því þá er alveg gerlegt fyrir okkur að komast áfram,“ sagði Freyr.

Rakel og Svava Rós tæpar

Hvernig er ástandið á leikmannahópnum?

„Leikmenn eru vitaskuld aðeins þreyttir en það hefur gengið vel að safna orku. Rakel og Svava Rós eru að glíma við smámeiðsli og eru spurningarmerki. Þær æfa báðar í dag og við munum skoða þær báðar eftir æfinguna,“ sagði Freyr.

Leikur Íslands og Tékklands hefst klukkan 15 á Laugardalsvelli á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert