Markvörður tryggði sigur á Íslandi

Ísland mátti þola 3:2-tap gegn Slóvakíu eftir hreint ótrúlegar, hádramatískar lokamínútur þar sem markvörður gestanna skoraði sigurmarkið, í undankeppni EM U21-landsliða karla á Alvogen-vellinum í Vesturbæ í dag.

Það er hreinlega erfitt að koma lokamínútum leiksins í orð. Bæði lið vissu að jafntefli hefði lítið að segja fyrir þau í baráttunni um að komast í umspil, en þangað fara aðeins lið með bestan árangur í 2. sæti í fjórum af undanriðlunum. Liðin berjast ásamt Norður-Írlandi um 2. sæti riðilsins og er Slóvakía nú í því sæti, fjórum stigum á undan Íslandi þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Eftir að staðan hafði verið 1:1 fram að lokamínútunum fékk Ísland tvö dauðafæri í röð til þess að komast yfir. Þess í stað komst Slóvakía í 2:1 á 90. mínútu en þá var ballið rétt að byrja. Ísland fór strax í sókn þar sem varamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson nældi í vítaspyrnu sem Albert Guðmundsson jafnaði metin úr. Slóvakar freistuðu þess að ná í öll þrjú stigin og sendu markvörð sinn, Marek Rodák, fram í hornspyrnu og hann náði að skalla boltann í netið og skora ótrúlegt sigurmark framhjá kollega sínum, Aroni Snæ Friðrikssyni, sem átti annars frábæran leik.

Slóvakía var heilt yfir sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum en tókst þó ekki að skora. Liðið fékk vítaspyrnu á 12. mínútu eftir vægt brot Jóns Dags Þorsteinssonar innan teigs, en Aron Snær Friðriksson varði vítaspyrnu fyrirliðans Denis Vavro og hélt boltanum. Aron Snær átti frábæran fyrri hálfleik og varði vel, sérstaklega rétt fyrir hlé þegar hann varði skalla framherjans Samuel Mráz af mjög stuttu færi.

Íslenska liðinu gekk ekki vel að halda boltanum innan liðsins en það er ekki heldur nauðsynlegt. Albert kom liðinu yfir, nánast upp á sitt einsdæmi, eftir afar stutta sókn. Aron Snær tók langa markspyrnu, Óttar Magnús Karlsson skallaði boltann á Albert á miðjum vallarhelmingi Slóvakíu, og Albert sá um rest. Hann sótti að vörninni, fór hægra megin við varnarmann rétt innan teigs og skaut föstu skoti í nærhornið. Eins og fyrr segir máttu íslensku strákarnir hins vegar prísa sig sæla að fara inn til búningsklefa með 1:0-forskot í hálfleik.

Snemma í seinni hálfleik hefðu Slóvakar átt að missa varnarmann af velli þegar Andrej Kladlec braut á Alberti í skyndisókn, sem aftasti varnarmaður, en fékk aðeins gult spjald fyrir.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu sem lesa má hér að neðan. Viðtöl koma innan skamms.

Ísland U21 2:3 Slóvakía U21 opna loka
90. mín. Leik lokið Slóvakar fagna sem óðir séu enda ekki skrýtið eftir þessar ótrúlegu, ótrúlegu, ótrúlegu lokamínútur.
mbl.is