Vonandi dugar að vinna síðustu tvo

Almarr Ormarsson með boltann í dag.
Almarr Ormarsson með boltann í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir/Hilmar

„Fyrri hálfleikurinn skilaði þessu, við byrjuðum leikinn af krafti og í einn eitt skipti hefðum við átt að skora fleiri mörk enda með yfirhöndina," sagði Almarr Ormarsson, leikmaður Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir mikilvægan sigur á Grindavík í Pepsi-deildinni í fótbolta í dag. 

Almarr vildi sjá Fjölni skora fleiri mörk, en að sjálfsögðu var hann ánægður með stigin þrjú. 

„Ég klúðraði dauðafæri og fleiri, en það var aðallega fyrri hálfleikurinn sem skilaði þessu. Við duttum aðeins niður í seinni en svo héldum við þetta út. Við ætluðum að pressa á þá strax og koma þeim á óvart, það tókst nokkuð vel. Við fengum færi í byrjun og mörkin hefðu getað orðið fleiri en við tökum þennan sigur."

Þótt Grindavík skapaði sér ekki mikið af færum, leið Almarri ekki allt of vel, enda forystan aðeins eitt mark. 

„Kannski rétt í lokin. Þeir vildu fá víti en ég sá ekkert hvað gerðist, það gæti vel verið að það hafi verið eitthvað. Þeir fengu svo föst leikatriði og einn glæsilegan hjólhest. Þetta er alltaf í hættu ef þú ert bara með eitt mark í forystu."

Fjölnir er enn þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar tveir leikir eru eftir. 

„Við þurftum að vinna í dag, það er ljóst. Við gátum hins vegar bara fengið þau þrjú stig sem í boði voru í dag. Við verðum að vinna síðustu tvo leikina, vonandi dugar það," sagði Almarr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert