Þetta sumar tók verulega á

Katrín Ómarsdóttir í baráttu í sumar.
Katrín Ómarsdóttir í baráttu í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Ómarsdóttir, besti leikmaður KR í dag og reyndar í allt sumar, var ekki í skýjunum í leikslok í dag. Hún er markahæst í KR liðinu eftir sumarið, með 5 mörk. KR gerði sitt annað jafntefli í sumar en hefði með sigrinum getað landað sjöunda sætinu, en enduðu tímabilið í því áttunda og því halda þær sæti sínu í Pepsi deildinni að ári.

„Við vorum bara lélegar í dag, náðum ekki tempói á boltann, og það vantaði mikið upp á hraðann hjá okkur sóknarlega. Allt sem átti að gerast á síðasta þriðjungi gerðist bara of hægt og þær náðu bara að loka á okkur og það gerðist bara ekkert hjá okkur,“ sagði Katrín.

„Ég er mjög sátt við það að við náðum að halda okkur uppi, en þetta sumar tók verulega á okkur sem lið og sem einstaklinga. Við erum að fá inn unga leikmenn í dag (Margrét Edda og Kristín Johnson) sem voru mikið með í vetur en ekki eins mikið með okkur í sumar og það er gott fyrir félagið,“ heldur Katrín áfram.

„Það er ekki mikið búið að tala um hvernig þetta verður á næsta ári, en það verður áhugavert að sjá hvort það verði einhverjar breytingar. Ég hef allavega ekkert heyrt,“ segir Katrín.

Sátt við okkar hlutskipti

Bojana Besic er þjálfari KR og gerði þriggja ára samning við félagið fyrir þetta tímabil og það er fátt því til fyrirstöðu að hún haldi áfram að gera góða hluti fyrir klúbbinn. Hún sagði um leikinn í dag:

„Við vorum bara ekki að skapa okkur nógu mörg færi í dag, en það versta var að við reyndum rosa lítið að skjóta. Tijana fékk boltann þarna einu sinni í dauðafæri á hægri fótinn og markmaðurinn varði bara mjög vel frá henni. Þetta var bara baráttuleikur sem við ætluðum að vinna, en ég get ekki annað en verið ánægð með sumarið.

Fyrir tímabilið misstum við marga leikmenn og við áttum að eiga erfitt með að skora mörk, en í dag þegar mótið er búið þá er ég bara sátt við okkar hlutskipti. Við skorum meira en í fyrra og endum með fleiri stig en í fyrra. Þá er ég bara mjög ánægð,“ segir Bojana.

Margrét Sif Magnúsdóttir.
Margrét Sif Magnúsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lét okkur heyra það í hálfleik

Margrét Sif Magnúsdóttir leikmaður HK/Víkings var borubrött eftir leik sinna manna við KR en hún sagði: „Við vorum með mikið breytt lið í dag og vorum að spila á mörgum óreyndum mönnum. Við vorum lélegar í fyrri hálfleik og náðum bara engum takti við leikinn, vorum stressaðar á boltann og gerðum voða lítið annað en að negla fram.“

„Þórhallur lét okkur heyra það í hálfleik enda var það nóg fyrir okkur að vakna og við náðum að spila betri fótbolta í seinni hálfleik, sem betur fer.“ sagði Margrét og hló.

„Við erum bara mjög ánægðar með sumarið og það var frábært að við náðum að halda okkur uppi, að vísu voru þessir tveir síðustu leikir okkar ekki sérstakir en við erum að byggja eitthvað sérstakt upp hérna og getum bara verið sáttar,“ sagði Margrét en lið hennar endaði í sjöunda sæti í töflunni á sínu fyrsta ári í Pepsi deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert