Sigur liðsheildarinnar

Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari ræðir við leikmenn sína á La …
Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari ræðir við leikmenn sína á La Manga. Ljósmynd/KSÍ

Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson var ánægður með frammistöðu lærimeyja sinna í vináttuleiknum gegn Skotum á La Manga í dag þar sem Íslendingar fögnuðu sigri 2:1.

Þetta var fyrsti leikur landsliðsins undir stjórn Jóns Þórs sem í október var ráðinn landsliðsþjálfari í stað Freys Alexanderssonar.

„Það er óhætt að segja að þetta sé óskabyrjun hjá mér sem þjálfara liðsins. Þetta var kærkomið verkefni sem við fengum hér við frábærar aðstæður og það var virkilega gott að ná að vinna sterkt lið Skota, sem vann sinn riðil í undankeppni HM og spilar í úrslitakeppninni í sumar. Ég verð að hrósa liði mínu fyrir að fara af fullum krafti inn í þennan leik og strax frá fyrstu mínútu leit liðið vel út og mér fannst við vera að fara að vinna þennan leik,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is eftir leikinn.

„Varnarleikurinn var heilt yfir öflugur í 90 mínútur. Það var smá stress í sóknarleik okkar í fyrri hálfleiknum en við náðum að róa okkur niður í hálfleik og þetta gjörbreyttist í seinni hálfleik. Boltinn gekk þá miklu betur og okkur gekk betur að halda boltanum innan liðsins. Við náðum að færa Skotana til og skapa okkur þau svæði sem við vildum. Við náðum að búa til góð færi og það voru nokkrar frábærar sóknir í seinni hálfleik. Skotarnir náðu að laga stöðuna með síðustu spyrnu leiksins og það er alltaf svekkjandi að ná ekki að halda markinu hreinu en sigurinn var frábær og gefur okkur byr í seglin. Þetta var sigur liðsheildarinnar. Það voru sterkir leikmenn á bekknum sem komu ekki inn á og það skín í gegn að þetta eru miklir liðsmenn. Það er hörkusamkeppni um stöður í liðinu og það er bara vel,“ sagði Jón Þór.

Næsta verkefni landsliðsins verður þátttaka í hinu árlega Algarve-cup móti í lok febrúar og byrjun mars en þar mætir Ísland liði Kanada og Skotlandi í riðlakeppninni og leikur svo um sæti.

„Það verður verðugt og skemmtilegt verkefni. Við fáum þrjá hörkuleiki þar og við höldum áfram þeirri vinnu sem við höfum verið í hér á La Manga,“ sagði Jón Þór sem vonast til að geta teflt Dagnýju Brynjarsdóttur á því móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert