Blikar fengu tilboð í Davíð að utan

Davíð Kristján Ólafsson í leik með Blikum í sumar.
Davíð Kristján Ólafsson í leik með Blikum í sumar. mbl.is/Hari

Breiðabliki hefur borist kauptilboð í bakvörðinn Davíð Kristján Ólafsson, en hann var á reynslu hjá norska B-deildarliðinu Aalesund á dögunum.

Þetta hefur mbl.is fengið staðfest úr herbúðum félagsins. Blikar íhuga nú tilboðið sem barst í dag, en telja það þó ekki samræmast getu leikmannsins. Má því ætla að viðræður félaganna muni halda eitthvað áfram, en norsk félög eru ekki bundin félagaskiptaglugganum sem lokar víða í Evrópu um mánaðamót.

Davíð, sem er 23 ára gam­all og leik­ur sem vinstri bakvörður, spilaði sinn fyrsta A-lands­leik í vináttu­leik gegn Eistlandi í Kat­ar fyrr í mánuðinum. Hann spilaði alla 22 leiki Blika í Pepsi-deild­inni síðastliðið sum­ar.

Aalesund komst í um­spil um sæti í norsku úr­vals­deild­inni nú í haust en tapaði naumlega í úrslitaeinvígi og leik­ur því áfram í B-deild­inni. Með liðinu leika Aron Elís Þránd­ar­son, Daní­el Leó Grét­ars­son og Hólm­bert Aron Friðjóns­son. Adam Örn Arn­ar­son yf­ir­gaf það eft­ir síðasta tíma­bil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert