Fyrirliðinn fær að einbeita sér að Wolfsburg

Ian Jeffs aðstoðarþjálfari og Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari.
Ian Jeffs aðstoðarþjálfari og Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm kunnar knattspyrnukonur verða ekki með landsliðinu í vináttuleikjunum tveimur gegn Suður-Kóreu ytra í apríl. Á það sér sínar skýringar að sögn Jóns Þórs Haukssonar landsliðsþjálfara sem kynnti leikmannahópinn á blaðamannafundi í dag. 

Í þeim hópi eru tvær sem hlotið hafa nafnbótina Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna, þær Sara Björk Gunn­ars­dótt­ir og Margrét Lára viðarsdóttir. En einnig þær Sif Atla­dótt­ir, Dagný Brynj­ars­dótt­ir og Agla  María Al­berts­dótt­ir. 

„Varðandi Söru þá tók ég þá ákvörðun snemma í ferlinu að gefa henni frí. Wolfsburg er auðvitað í baráttu um sigra í mörgum keppnum á lokakafla tímabilsins. Er í undanúrslitum í bikarnum, í hörkukeppni við Bayern í Bundesligunni og mætir Lyon í Meistaradeildinni. Leikjaálagið er mikið og tel að það gagnist okkur í haust að leyfa henni að hlaða batteríin núna.

Varðandi Sif þá er þar annar lykilmaður sem staðið hefur sig frábærlega í undanförnum leikjum og er leiðtogi eins og Sara. Hún sneri sig örlítið á ökkla á Algarve en spilaði í sænsku bikarkeppninni nokkrum dögum eftir Algarve og fann þá aðeins fyrir ökklanum. Við töldum að best væri að hún noti tímann í landsleikjahléinu til að ná sér að fullu og þá getur hún mætt fullfrísk inn í sænsku deildina í apríl.

Varðandi Öglu Maríu þá er hún því miður í lokaprófum í háskólanum og kemst því ekki með. Því er ekki hægt að breyta og það er bara veruleikinn að ekki eru allar landsliðskonurnar atvinnumenn. Vonandi styttist í það en það er ekki orðið að veruleika og við verðum bara að sýna því skilning að þessar stelpur eru að mennta sig og þurfa að sinna sínu námi. Agla hefur auk þess spilað alla leiki undir minni stjórn og við vitum nákvæmlega hvað hún getur,“ sagði Jón Þór og hann segir að þær Dagný og Margrét Lára séu ekki komnar í landsliðsform eftir langa fjarveru frá knattspyrnunni. Svo framarlega sem þær lendi ekki í meiðslum þá telur hann að þær nái fullum styrk fyrir landsleikina í haust. 

„Þær eru að snúa til baka eftir langa fjarveru og þær eiga svolítið í land með að ná fullum styrk. Vonandi ná þeir að sleppa við meiðsli áður en deildirnar byrja hjá þeim og Dagný er byrjuð að æfa með Portland í Bandaríkjunum. Þær eiga vonandi flott tímabil fyrir höndum og verða þá í góðu formi þegar landsliðsverkefnið er í haust. Tveir frábærir leikmenn sem hafa gæði í sínum leik sem ekki eru á hverju strái í íslenskri knattspyrnu.“

Hverju vill Jón ná út úr leikjunum í S-Kóreu? „Við viljum fá svör við nokkrum spurningum. Undankeppnin byrjar í haust og þá viljum við eiga svör við því hvað sé okkar sterkasta lið en það er ekki nóg því við viljum líka vita hverjar koma þar næst á eftir og hvaða leikmenn geta leyst fleiri en eina stöðu. Við prófuðum ýmislegt á Algarve og létum þá leikmenn spila stöður sem þær spila ekki vanalega með það fyrir augum að leita svara við því,“ sagði Jón Þór Hauksson í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is