„Kannski er þetta eitthvað uppsafnað“

Ólafur Jóhannesson kemur skilaboðum áleiðis í dag.
Ólafur Jóhannesson kemur skilaboðum áleiðis í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var léttur á brún eftir leik KA og Vals í Pepsi-Max deild karla í fótbolta í dag. Hann þurfti reyndar að horfa upp á sína menn tapa öðrum leik sínum í röð. KA-menn skoruðu eina mark leiksins úr víti snemma í seinni hálfleik. Eftir það var Valur mun meira með boltann án þess að skapa hættuleg færi. Inn á milli fékk KA svo stórhættuleg upphlaup sem ekki nýttust.

„Það vantar aðeins uppá hjá okkur eins og er. Við höfum reyndar alltaf verið í pínulitlu basli hérna á Akureyri undanfarin ár en alltaf náð að grísa í jafntefli. Við gerðum það ekki í dag. Kannski er þetta eitthvað uppsafnað. Við fengum engin færi í þessum leik og það situr svolítið í mér. Sóknarleikurinn var bara dapur hjá liðinu og lítið að frétta þar.“

Þú ert eldri en tvívetra í þessum bransa og ert ekki farinn að örvænta neitt.

„Nei, nei. Það er bara næsti leikur sem þarf að fara að hugsa um. Við höfum áður lent í málum sem hafa ekki farið alveg eins og maður hefði viljað. Óneitanlega er eitt stig lítið fyrir okkur en við höldum áfram“ sagði Ólafur brattur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert