KR-ingar á tæpasta vaði gegn HK

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, með boltann í leiknum gegn …
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, með boltann í leiknum gegn HK í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR-ingar unnu nauman sigur þegar nýliðar HK komu í heimsókn í 5. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. KR fagnaði 3:2-sigri þar sem gestirnir frá Kópavogi klúðruðu meðal annars vítaspyrnu en skoruðu tvö mörk undir lokin.

KR-ingar pressuðu þungt frá upphafi leiks og mættu gestunum af mikilli hörku. Það voru þó HK-ingar sem fengu fyrsta alvörufæri leiksins þegar Ólafur Örn Eyjólfsson átti skot sem fór af varnarmanni og þaðan í þverslá. Örskömmu síðar, á 21. mínútu, komust KR-ingar hins vegar yfir.

Óskar Örn Hauksson fékk þá boltann hægra megin, komst í ágætt skotfæri utan teigs en sendi þess í stað fyrir. Kristinn Jónsson var þar á fjærstöng, skallaði boltann inn í teig þar sem Pálmi Rafn Pálmason stýrði honum í netið. Staðan 1:0 fyrir KR.

HK-ingar áttu nokkrar tilraunir á mark KR en Máni Austmann Hilmarsson fékk algjört dauðafæri þegar varnarmenn KR misreiknuðu sendingu svo boltinn barst alla leið á Mána sem var aleinn við stöngina. Skotið var hins vegar slakt og Beitir Ólafsson varði.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks tvöfaldaði KR forskot sitt og það var ansi furðulega gert. Tobias Thomsen fékk boltann utan teigs, hafði nægan tíma til þess að leggja hann fyrir sig en skotið var hins vegar afleitt við fyrstu sýn. Einhvern veginn rataði boltinn hins vegar í átt að marki, laflaust þó, og lak í netið fram hjá Arnari Frey Ólafssyni í marki HK. Staðan 2:0 fyrir KR í hálfleik.

Magnaður sprettur og varið víti

Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik kom svo þriðja mark KR. Eftir pressu HK vann Pablo Punyed boltann og sendi langa sendingu fram á miðjan völlinn. Þar tók Björgvin Stefánsson við honum, tók á rás og komst alla leið inn í vítateiginn þar sem hann svo kláraði færið með hnitmiðuðu skoti. Magnaður sprettur og staðan orðin 3:0 fyrir KR.

KR-ingar höfðu mikla yfirburði, en á 65. mínútu komust HK í sókn og fengu vítaspyrnu eftir að Finnur Tómas Pálmason, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir KR, braut á Brynjari Jónassyni. Brynjar fór sjálfur á vítapunktinn en Beitir Ólafsson í marki KR varði fasta spyrnu hans glæsilega.

Tvö mörk HK í blálokin

HK-ingar bitu hins vegar hressilega frá sér undir lok leiksins og það skilaði þeim tveimur mörkum. Bakvörðurinn Birkir Valur Jónsson fékk fyrst boltann hægra megin í teignum, lét vaða og boltinn fór fram hjá varnarpakkanum og Beiti í markinu. Markið á 86. mínútu og staðan 3:1 fyrir KR.

Tveimur mínútum síðar fékk svo varamaðurinn Kári Pétursson boltann utan teigs og lét bara vaða. Það skilaði sér heldur betur því boltinn fór beint upp í vinkilinn. Glæsilegt mark sem hleypti spennu í lokaandartökin, en KR hélt út. Lokatölur 3:2 fyrir KR.

Þetta var annar sigur KR í sumar, en liðið hafði áður gert tvö jafntefli og tapað einum leik og hefur nú átta stig í fjórða sætinu. HK er með fjögur stig í tíunda sæti.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld. Nánar er svo fjallað um alla leiki kvöldsins á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

KR 3:2 HK opna loka
90. mín. Það eru 1.099 áhorfendur hér í kvöld. Ágæt mæting.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert