„Af hverju er hann að fara út af?“

Sölvi Geir Ottesen fékk að líta rauða spjaldið þegar korter …
Sölvi Geir Ottesen fékk að líta rauða spjaldið þegar korter var til leiksloka í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Davíð Örn Atlason voru nokkuð sammála um hvernig leikur KR og Víkings hefði þróast í Laugardalnum í kvöld þegar KR vann 1:0-sigur með marki Óskars Arnar Haukssonar á 5. mínútu.

„Þeir eru rosalega vel spilandi og trúir sínu kerfi, erfitt að eiga við þá, svo þetta var mjög sterkur sigur fyrir okkur. Við ætluðum að pressa hátt á þá þegar við gætum og vera þéttir þegar þeir næðu upp sínu spili. Mér fannst það takast ágætlega. Þeir voru hættulegir á köflum en að mestu fannst mér við ná að loka vel á þá,“ sagði Arnór við mbl.is, ánægður með hvernig KR hélt út:

„Við fengum mark á okkur í lokin gegn Fylki, tvö mörk á okkur í seinni hluta leiksins gegn HK, og þurftum að vinna betur í fókusnum til að halda svona leiki út. Mér fannst við gera það mjög vel.“

Sölvi Geir Ottesen, miðvörður Víkinga, átti fínan leik en fékk rautt spjald korteri fyrir leikslok fyrir brot á Pálma Rafni Pálmasyni í vítateig KR.

Sölvi færi ekki að gefa viljandi olnbogaskot

„Ég sá ekki hvað gerðist. Kennie [Chopart] spurði mig einmitt þegar þetta gerðist; „hva, af hverju er hann að fara út af?“ Ég vissi ekki að hann hefði fengið rautt. En við kvörtuðum náttúrulega ekkert,“ sagði Arnór Sveinn. Víkingar furðuðu sig á dómnum:

„Ég var að fylgjast með boltanum og sá ekki hvað gerðist. Dómararnir voru ekki vissir hvort það hefði farið hendi eða olnbogi í hausinn á honum. Það fékk einhver [Finnur Orri Margeirsson] gult spjald fyrir að fara með olnboga í hausinn á Júlla [Júlíusi Magnússyni] í fyrri hálfleik. Sölvi er ekki svo heimskur að fara að gefa viljandi olnbogaskot inni í teig í þessari stöðu. Hver er þá munurinn á þessum óviljandi olnbogaskotum, eða hvað þetta var?“ spurði Davíð Örn Atlason. Hann segir Víkinga verða að fara að vinna sinn fyrsta sigur í sumar en liðið er með þrjú stig eftir fyrstu sex leiki sína.

„Við nánast byrjuðum leikinn 1:0 undir og þeir gerðu vel í að verja þetta forskot allan leikinn. Mér fannst við vera að þrýsta þeim aftur, og með boltann nánast allan leikinn, en þeir gerðu vel í að halda fengnum hlut. Skoruðu snemma og pökkuðu í vörn.

Við töluðum um það í hálfleik að við værum með svipaða tilfinningu og gegn Stjörnunni, þar sem við vorum mikið betri aðilinn í fyrri hálfleik en samt 2:0 undir. Við eigum greinilega í vandræðum með að skora mörk úr opnum leik, við höfum ekki skorað í síðustu tveimur leikjum úr opnum leik, og það er eitthvað sem við þurfum að skoða,“ sagði Davíð.

Óskar Örn Hauksson skoraði eina mark leiksins í kvöld.
Óskar Örn Hauksson skoraði eina mark leiksins í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert