Hann endaði bara í vinklinum

Valgeir Valgeirsson í leik með HK.
Valgeir Valgeirsson í leik með HK. mbl.is/Hari

Valgeir Valgeirsson, hinn sextán ára gamli leikmaður HK, skoraði afar dýrmætt mark fyrir Kópavogsliðið í dag þegar það lagði KA að velli, 2:1, í úrvalsdeild karla í fótbolta í  Kórnum.

Valgeir skoraði sigurmarkið á 84. mínútu með glæsilegu skoti efst í markvinkilinn vinstra megin.

„Þetta var geggjað mark og tilfinningin að skora hefur aldrei verið betri. Ég var akkúrat á vítateigslínunni þegar Ásgeir tók hornið, og KA-maðurinn skallaði boltann frá markinu. Þegar boltinn kom til mín vissi ég strax að ég ætlaði að taka hann í fyrsta, ekki taka neina auka snertingu, og hann endaði bara í vinklinum," sagði Valgeir við mbl.is eftir leikinn.

Valgeir er þá  búinn að skora tvö mörk í deildinni en hann skoraði fyrir skömmu í 2:0 útisigri HK-inga gegn Skagamönnum.

„Það er geggjað, ég ætlaði mér að skora fleiri mörk á þessu tímabili. Nú eru þau orðin tvö og ég er staðráðinn í að bæta fleirum við í sumar," sagði Valgeir Valgeirsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert