Þessi drengur hefur þvílíka hæfileika

Björn Berg Bryde skorar fyrsta mark leiksins fyrir HK 1:0. …
Björn Berg Bryde skorar fyrsta mark leiksins fyrir HK 1:0. Kristijan Jajalo í markinu kom engum vörnum við. mbl.is/Árni Sæberg

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK sagði eftir sigur Kópavogsliðsins á KA, 2:1, í úrvalsdeild karla í fótbolta í Kórnum í dag að það væri góður áfangi að hafa loks náð að vinna tvo leiki í röð. 

„Við náðum oft fínu flæði í okkar leik í dag og þessi sigur gefur okkur svigrúm til að anda örlítið. Við erum búnir að vera í baráttu þarna niðri, og nú höfum við stigið aðeins upp úr henni. Það þýðir samt ekki að við getum slakað eitthvað á. Við erum með okkar markmið og erum ekki búnir að ná þeim þannig að það er ekkert annað en að halda áfram," sagði Leifur Andri við mbl.is.

„Við erum búnir að vinna í því í sumar að reyna að tengja saman sigra og náðum því loksins með því að vinna þennan leik á heimavelli. Og það var mjög mikilvægt að ná þessum stigum á heimavellinum, sem við ætluðum að gera að okkar vígi en við vorum fyrir þennan leik búnir að fá fleiri stig á útivelli en heima. Við snerum því líka við í dag," sagði Leifur Andri.

Hinn sextán ára gamli Valgeir Valgeirsson skoraði sigurmark HK á 84. mínútu og kom í veg fyrir að liðið missti enn einu sinni af stigum á lokaspretti leiks.

„Þetta var eiginlega öfugt  við það sem hefur verið að gerast hjá okkur í sumar. Við höfum lent í basli og fengið á okkur mörk seint í leikjunum en núna snerist það við og ég held að við höfum átt þetta inni. Manni leið smá illa um tíma þarna seint í leiknum, frá 75. mínútu og þar til Valgeir skoraði, og það var mikil pressa á okkur á þeim kafla. Þessi drengur hefur þvílíka hæfileika og það er gott að vera með svona strák inná sem getur poppað upp út úr engu og skorað."

Leifur Andri Leifsson í leik með HK.
Leifur Andri Leifsson í leik með HK. mbl.is/Hari


Hvað gerðist þarna í lokin þegar stimpingarnar urðu við hornfánann og Bjarni Gunnarsson fékk rauða spjaldið?

„Ég sá það ekki nógu vel. Það var brotið á Bjarna og það duttu einhvern veginn tveir ofan á hann. Svo varð einhver darraðardans úr því, eflaust var þetta rautt spjald á hann en þau hefðu líklega getað verið fleiri. Bjarni er mjög rólegur drengur þannig að það hefur eitthvað mikið gerst. Hann fer í bann en en við erum með Emil Atlason og Brynjar Jónasson á bekknum, tvo frábæra sóknarmenn. Bjarni fær hvíld í næsta leik og kemur svo ferskur til baka," sagði Leifur Andri Leifsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert