„Þetta verður erfitt“

Aron Bjarnason leikur kveðjuleik sinn með Blikunum í dag.
Aron Bjarnason leikur kveðjuleik sinn með Blikunum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er ljóst að Breiðablik þarf að skora þegar liðið mætir Vaduz frá Liechtenstein í síðari viðureign liðanna í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta á Rheinpark Stadion í Vaduz í dag.

Markalaust jafntefli varð niðurstaðan á Kópavogsvellinum fyrir viku síðan og möguleikar eru því fyrir hendi hjá Blikunum að komast í aðra umferðina.

Mbl.is náði tali af Guðmundi Steinarssyni aðstoðarþjálfari Breiðabliks í morgun en Guðmundur er mættur á fornar slóðir sem og fyrirliðinn og markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson en þeir léku með Vaduz í nokkra mánuði fyrir áratug síðan.

„Það hefur farið ljómandi vel um okkur hér í Lichtenstein. Hér eru allar aðstæður upp á tíu. Það er gaman að koma aftur hingað og það rifjast upp skemmtilegar minningar,“ sagði Guðmundur við mbl.is.

Hvernig leggið þið upp leikinn í dag?

„Þetta verður erfitt. Vaduz-liðið er mjög sterkt á heimavelli og hefur aðeins tapað einum af síðustu þrettán Evrópuleikjum í Vaduz. En við teljum okkur möguleika á að slá það út. Það er frábært að eiga möguleika á því í seinni leiknum og við þurfum að nýta okkur það. Það var dýrmætt að ná að halda markinu hreinu í fyrri leiknum og því getur útivallarmark í dag gefið okkur mikið. Við þurfum að halda skipulagi, vera þéttir til baka, reyna að sækja hratt á þá þegar færi gefst og það er ljóst að við þurfum að skora,“ sagði Guðmundur.

Kveðjuleikur Arons

Guðmundur segir að allir þeir 20 leikmenn sem fóru til Liechtenstein séu klárir í slaginn. Aron Bjarnason leikur kveðjuleik sinn með Blikunum í dag en hann gekk nýlega frá samningi við ungverska liðið Újpest. Spurður hvort fleiri leikmenn séu á förum frá Breiðabliki sagði Guðmundur;

„Nei ég á ekki von á því. Það eru alltaf einhverjar fyrirspurnir en ekkert í líkingu við það sem gerðist hjá Aroni. Þá kom alvöru tilboð. Meðan ekkert slíkt kemur þá reiknum við ekki með því að fleiri fari. Eins og flest lið eru við með augun opin varðandi liðsstyrk. Við erum ánægðir með hópinn okkar en ef eitthvað spennandi kemur upp sem erfitt er að hafna þá munum við skoða það,“ sagði Guðmundur.

Flautað verður til leiks í leik Vaduz og Breiðabliks klukkan 17 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Guðjón Pétur Lýðsson í baráttu við leikmann Vaduz.
Guðjón Pétur Lýðsson í baráttu við leikmann Vaduz. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert