Vantar gulrótina í endann

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir
Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, markmaður og fyrirliði Þórs/KA, var skiljanlega svekkt eftir 0:2-tap fyrir KR á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld. 

„Þetta var ömurlegt, vægast sagt. Það er ógeðslega leiðinlegt að tapa svona leik. Sérstaklega þar sem við slógum Val úr bikarnum, þá vildum við fara alla leið. Við þurfum hins vegar að klára alla leiki til að fara alla leið," sagði Bryndís í samtali við mbl.is.

Staðan í hálfleik var markalaus, en KR skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum. „Þær ná inn marki snemma sem rotaði okkur svolítið. Við það komust þá á bragðið og duttu í gír. Það kemur svo smá klúður hjá mér í öðru markinu og eftir það var þetta erfitt."

Illa gekk hjá Þór/KA að skapa mjög góð færi og þurfti Ingibjörg Valgeirsdóttir í marki KR ekki oft að taka á honum stóra sínum. 

„Það er búið að vera vandamál hjá okkur í síðustu leikjum að við náum ekki að skapa okkur eins mörg marktækifæri og undanfarin ár. Við þurfum að laga það," sagði Bryndís, áður en hún viðurkenndi að tímabilið hjá Þór/KA væru mikil vonbrigði. Liðið er búið að missa af Íslandsmeistaratitlinum og nú fallið úr leik í bikar. 

„Þetta eru vægast sagt rosalega mikil vonbrigði. Það er svolítið erfitt að gíra sig upp í deildina. Við tökum einn leik í einu og erum að reyna að ná í stig. Það vantar svolítið gulrótina í endann fyrir okkur," sagði Bryndís Lára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert