Guðbjörg ófrísk að tvíburum

Guðbjörg Gunnarsdóttir er ólétt og verður að öllum líkindum ekki …
Guðbjörg Gunnarsdóttir er ólétt og verður að öllum líkindum ekki með íslenska landsliðinu í undankeppni EM 2020. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðsmarkmaðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir á von á tvíburum í janúar á næsta ári og er því komin í ótímabundið leyfi frá knattspyrnu. Þetta tilkynnti hún á twittersíðu sinni í dag. Guðbjörg er samningsbundin sænska úrvalsdeildarliðinu Djurgården en hún var ekki með liðinu í 1:0-útisigri þess gegn Limhamn Bunkeflo í síðustu umferð.

Guðbjörg hefur verið varafyrirliði landsliðsins undanfarin ár, en það verður að teljast ólíklegt að hún muni leika með íslenska landsliðinu í undankeppni EM 2020 sem hefst 29. ágúst næstkomandi þegar Ísland fær Ungverjaland í heimsókn á Laugardalsvöll. Lokaleikur liðsins í riðlakeppninni verður gegn Svíþjóð á útivelli, 22. september 2020.

Guðbjörg á að baki 64 landsleiki fyrir Íslands hönd en hún er næstleikjahæsti markmaður í sögu landsliðsins á eftir Þóru Helgadóttur. Guðbjörg hélt út í atvinnumennsku árið 2008 og lék með Djurgården í fjögur ár. Þá lék hún með Potsdam í Þýskalandi í tvö ár áður en hún hélt til Noregs þar sem hún spilaði með Lillestrøm til ársins 2015 þegar hún fór aftur til Svíþjóðar og samdi við Djurgården á nýjan leik.

mbl.is