Gott að Evrópusætið sé í höfn

Höskuldur Gunnlaugsson.
Höskuldur Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höskuldur Gunnlaugsson innsiglaði Evrópusætið fyrir Breiðablik þegar hann tryggði sínum mönnum jafntefli gegn Stjörnunni í 20. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í kvöld.

Stigið gerði það að verkum að Evrópusætið er tryggt hjá Blikum en þeir geta ekki lent neðar en í þriðja sæti deildarinnar.

„Við getum glaðst yfir því að Evrópusætið er tryggt en við áttum klárlega að vinna þennan leik. Stjarnan er með hörkuvarnarlið og það var gott hjá okkur að koma til baka eftir að hafa lent undir. Við náðum samt oft að opna Stjörnuvörnina í seinni hálfleik og við vorum klaufar að skora ekki fleiri mörk.

Stjarnan refsaði okkur einu sinni í fyrri hálfleik og gerði það vel en við sóttum án afláts í seinni hálfleik en því miður tókst okkur ekki að skora nema eitt mark,“ sagði Höskuldur við mbl.is eftir leikinn.

„Við ætluðum bara að reyna allt sem við gátum til að vinna síðustu þrjá leikina. Maður átti kannski ekkert sérstaklega von á því að Valur myndi tapa fyrir KR en Evrópusætið er alla vega í höfn og það kemur ekki til greina annað en að taka annað sætið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert