Flott endurkoma hjá íslensku strákunum

Íslenska U21 árs landsliðið vann í dag góðan 1:0 sigur gegn Írum í undankeppni EM í hryssingslegu veðri á Víkingsvellinum.

Ísland hefur þar með unnið alla þrjá heimaleiki sína á Víkingsvellinum en eini tapleikur liðsins leit dagsins ljós í Svíþjóð um síðustu helgi þar sem Svíar kjöldrógu íslenska liðið og unnu 5:0 sigur.

Íslendingar voru heilt yfir sterkari í fyrri hálfleik. Fyrirliðinn Jón Dagur Þorsteinsson átti góða marktilraun á 17. mínútu en hann náði góðu skoti úr þröngu færi sem markvörður Íra gerði vel í að verja.

Ísland náði forystunni á 29. mínútu. Eftir barning í teignum átti Ari Leifsson skot að markinu. Boltinn hafði viðkomu í hönd varnarmanns Íra og dómarinn frá Moldóvu benti á vítapunktinn. Sveinn Aron Guðjohnsen tók vítaspyrnuna og skoraði af miklu öryggi.

Síðari hálfleikurinn í járnum og lítið um færi. Íslenska liðið varðist vel og skipulagið á liðinu var gott og baráttan leikmanna íslenska liðsins var til fyrirmyndar. Þeir ætluðu sér að bæta fyrir skellinn sem þeir fengu í Svíþjóð og þeim tókst það.

Í góðri liðsheild var Alex Þór Hauksson fremstur á meðal jafningja. Hann skilaði flottri vinnu aftarlega á miðsvæðinu þar sem hann vann marga bolta og barðist vel. Hörður Ingi Gunnarsson átti flottan leik í vinstri bakvarðarstöðunni og þeir Jón Dagur Þorsteinsson og Kolbeinn Finnsson áttu flotta spretti. Vörnin var þétt fyrir með miðverðina Ara Leifsson og Ísak Óla Ólafsson mjög öfluga og Patrik Gunnarsson var traustur á milli stanganna.

Ísland U21 1:0 Írland U21 opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er 5 mínútur.
mbl.is