Ólíklegt að af þessu verði

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is//Hari

Í morgun greindi Fréttablaðið frá því að að forráðamenn liða í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefðu hug á því að koma hingað til lands og undirbúa sig fyrir endurkomu deildarinnar en hún hefur verið í hléi frá því 9. mars vegna kórónuveirufaraldursins.

Þá greindi Fréttablaðið frá því að óformlegar viðræður hefðu átt sér stað milli liðanna, KSÍ og íslenskra stjórnvalda.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segist hafa heyrt af þessum vangaveltum en segir að engar formlegar viðræður hafi átt sér stað.

„Þetta eru í raun bara óformlegar þreifingar sem hafa átt sér stað þannig að það er lítið hægt að tjá sig um þetta,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í morgun. „Bæði enska og spænska knattspyrnusambandið eru með áform um það að klára sín mót og þannig stendur málið.

Við höfum orðið vör við ákveðnar vangaveltur um þetta og fengið einhverjar fyrirspurnir en það er í raun ekki komið í neinn formlegan farveg og algjörlega ótímabært að vera tjá sig um þetta. Markmiðið á Englandi og Spáni er fyrst og fremst að mótin klárist í viðkomandi löndum og þar er málið statt eins og er.“

Guðni neitar því ekki að það yrði gaman að fá …
Guðni neitar því ekki að það yrði gaman að fá stórstjörnur enska boltans hingað til lands. AFP

Að mörgu að huga

Þá telur Guðni ólíklegt að af þessu verði en Íslandsmótið í knattspyrnu hefst 12. júní og því ljóst að það verður mikið álag á æfingavelli íslensku liðanna á næstu vikum.

„Ég veit svo sem ekki hvort einhver félög hafi hug á því að koma hingað og æfa. Ég get í raun ekki sagt að það sé í einhverri bígerð og maður sér ýmsa annmarka á því. Það veltur á mörgu, meðal annars ástandi í viðkomandi löndum og sóttkvíarúrræðum líka. Það þarf ýmislegt að gerast til þess að þetta verði að veruleika og eins og staðan er núna þá tel ég það frekar ólíklegt að af þessu verði.

Vissulega yrði áhugavert að fá þessi lið hingað til lands en þetta eru ekkert meira en vangaveltur eins og staðan er í dag. Aðildarfélögin hér á landi þyrftu líka að koma að þessu á einhvern hátt og gefa eftir sína aðstöðu. Við þyrftum líka að skoða öll sóttvarnaúrræði þannig að það er að mörgu að huga ef þetta færi eitthvað lengra,“ bætti Guðni við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert