Alltaf erfitt að koma til Eyja

Pétur Pétursson fylgist með sínu liði í kvöld.
Pétur Pétursson fylgist með sínu liði í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er bara mjög ánægður með þetta, mér finnst persónulega alltaf erfitt að koma til Eyja og spila og það var raunin í dag,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Íslandsmeistara Vals sem unnu góðan 3:1 úti sigur á ÍBV á Hásteinsvelli í kvöld í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta.

„Mér fannst við eiga það virkilega skilið að skora nokkur mörk í fyrri hálfleik en staðan er bara 1:0 í hálfleik og svo var mjög gott að skora annað markið snemma í seinni hálfleik.“

Valskonur komust í 2:0 eftir 47. mínútna leik en Eyjakonur minnkuðu muninn með marki frá Grace Hancock og virtist þá koma smá skjálfti í lið Vals. „Auðvitað kemur alltaf pressa á mann í svona stöðu, það er alltaf pressa því þú getur fengið á þig jöfnunarmarkið en við bara kláruðum þennan leik.“

Valskonur eru með fullt hús stiga eftir fyrstu fjórar umferðirnar og lýtur þar að leiðandi tímabilið vel út hjá Val. „Við vonum að þetta stefni bara á bjart sumar hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert