Pálmi Rafn: Við eigum að skammast okkar

Pálmi Rafn Pálmason (fyrir miðju) í leik með KR gegn …
Pálmi Rafn Pálmason (fyrir miðju) í leik með KR gegn Stjörnunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ógeðslega svekktur en ætli við höfum nokkuð átt meira skilið úr þessum leik?“ velti hnugginn Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir að Íslandsmeistararnir náðu ekki nema að merja jafntefli gegn nýliðum og nágrönnunum í Gróttu í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í dag.

Nágrannafélögin voru að mætast í deildarkeppni í fyrsta sinn í sögunni og bjuggust væntanlega flestir við því að ríkjandi meistararnir myndu vinna nokkuð öruggan sigur gegn Gróttu sem situr í næst neðsta sæti og er líklegt til að falla rakleiðis aftur úr deildinni. Þær væntingar breyttust ekki þegar Sigurvin Reynisson, fyrirliði Gróttu, fékk beint rautt spjald í fyrri hálfleik. Engu að síður tóku gestirnir óvænt forystu í leiknum og þurfti KR-ingar að hafa fyrir því að jafna seint og síðar meir. Pálmi hrósaði Gróttu fyrir sinn leik en sagði úrslitin ekki KR sæmandi.

„Þeir gerðu þetta mjög vel, ég tek það ekkert af þeim en við létum boltann ekki ganga vel og spiluðum ekki leikinn eins og lagt var upp með. Við erum á rassgatinu nánast allan leikinn og eigum að skammast okkar fyrir þessa frammistöðu,“ sagði miðjumaðurinn tæpitungulaust.

„Menn verða að mæta í alla leiki, sama við hverja við spilum. Við erum búnir að margbrenna okkur á þessu. Ég vil meina að við getum verið besta liðið á landinu en við getum líka verið ansi slakir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert