Það hafa allir gott af smá hvíld

Viktor Bjarki Arnarsson aðstoðarþjálfari og Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK …
Viktor Bjarki Arnarsson aðstoðarþjálfari og Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK rýna inn á völlinn í snjókófi á Greifavellinum á Akureyri í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK í Pepsi Max-deild karla í fótbolta gerði fimm breytingar á byrjunarliði sínu þegar lið hans sótti KA heim á Greifavöllinn á Akureyri í dag.

HK spilaði gegn Víkingi á mánudag og því var skynsamlegt að róta aðeins í mannskapnum. Leikurinn fór 1:1 og var HK yfir lengstum í leiknum. KA þjarmaði að HK á löngum köflum án þess að skapa mörg færi. Jöfnunarmark frá KA tíu mínútum fyrir leikslok var einkar glæsilegt, langskot með vinstri upp í skeytin. 

Þú ert kominn með mun breiðari hóp en í fyrra og í upphafi þessa tímabils. Það sýnir sig í þessum breytingum á liðinu milli leikja. Þú getur leyft þér þetta. 

„Já við eru með það góðan mannskap að ég get leyft mér það í flestum stöðum. Það er mjög gott eins og er spilað núna. Það er stutt á milli leikja. Sumir hafa spilað meira en aðrir, ekki bara síðustu vikuna heldur bara á tímabilinu. Það hafa allir gott af smá hvíld líka og ég tel að svona breytingar hafi ekki áhrif á okkar leik. Það er nú helsta ástæðan fyrir því að ég leyfi mér að gera allar þessar breytingar.“ 

Ég ímynda mér að það hafi verið gaman fyrir þig, sem fyrrum varnarmann, að horfa á þéttan og vel skipulagðan varnarleik þinna manna í dag. KA átti í mestu vandræðum með að finna glufur á vörninni og skapa sér færi. Þeir fengu vissulega eitt algjört dauðafæri og svo þurfti einhver töfrabrögð frá Almari til að skora hjá ykkur. 

„Þetta er rétt hjá þér. Þeir sköpuðu eitt dauðafæri. Fyrir utan það þá man ég ekki eftir neinum möguleikum sem þeir fengu. Við vörðum teiginn okkar vel og vörðumst vel á teignum okkar. Svo þegar við fáum markið á okkur þá verjumst við fyrsta skotinu en erum bara ekki vakandi fyrir seinni boltanum. Það er sekúndubrot og þótt það sé búið að gera vel í 90 mínútur þá þarf að klára allar stöður á þeim tíma.“ 

Nú eigið þið sex leiki eftir í deildinni og eruð í áttunda sætinu. Þið hljótið að vilja klifra ofar. Er sjötta sætið ykkar markmið núna? 

„Við horfum upp, það er klárt. Við erum ekki búnir að ná okkar markmiðum enn þá. Ég tel samt að þeir sex leikir sem eftir eru muni duga okur til að ná þeim“ sagði hinn geðþekki þjálfari að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert