Stjarnan kreisti fram jafntefli

Brynjar Gauti Guðjónsson úr Stjörnunni og Ólafur Karl Finsen úr …
Brynjar Gauti Guðjónsson úr Stjörnunni og Ólafur Karl Finsen úr FH eigast við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan kreisti fram jafntefli gegn FH á heimavelli í frestuðum leik úr 14. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin fyrir heimamenn í uppbótartíma.

FH-ingar voru í alls kyns vandræðum í fyrri hálfleik, komust lítið í boltann og þurftu að verjast áræðnum leikmönnum Stjörnunnar sem ætluðu ekki að tapa öðrum heimaleiknum í röð. Engu að síður voru það gestirnir sem fengu besta færi fyrri hálfleiksins er Björn Daníel Sverrisson átti skot af stuttu færi, eftir fyrirgjöf Þóris Jóhanns Helgasonar, en Haraldur Björnsson varði virkilega vel í marki Stjörnunnar. Staðan var svo markalaus í hálfleik.

Það voru svo Hafnfirðingar sem tóku forystuna á 55. mínútu er Pétur Viðarsson skoraði úr skalla eftir aukaspyrnu frá Þóri Jóhanni og voru gestirnir kraftmiklir í upphafi síðari hálfleiksins. Steven Lennon, markahæsti leikmaður deildarinnar, fékk sannkallað dauðafæri til að bæta við marki tveimur mínútum síðar þegar hann slapp í gegn en Haraldur varði í tvígang frá honum í markinu og kom Stjörnumönnum heldur betur til bjargar.

Eftir 10-15 mínútna kafla FH færðu Stjörnumenn sig aftur upp á skaftið og úr varð hörkuleikur. Bæði lið fengu færi en í uppbótartíma kreistu heimamenn fram jöfnunarmark. Heiðar Ægisson átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri og Hilmar Árni náði að skora úr þröngu færi. FH-ingar naga sig eflaust í handarbökin yfir færunum sem fóru forgörðum, sérstaklega Lennon. Haraldur sýndi það hins vegar að hann er einn af sterkari markvörðum deildarinnar, hélt liði sínu á floti nokkrum sinnum í kvöld.

Valsarar sigurvegarar kvöldsins

Þegar allt er til alls þá eru það sennilega Valsarar á toppi deildarinnar sem græða langmest á þessum úrslitum. Fyrir leikinn voru Stjarnan og FH þau lið sem áttu hvað helst möguleika á að ná toppliðinu sem er með 41 stig í fyrsta sætinu. FH-ingar eru nú með 33 stig og Stjarnan er með 28 stig í 4. sæti og á leik til góða á Hlíðarendaliðið.

Stjarnan 1:1 FH opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert