Þorgrímur sá smitaði í starfsliði Íslands

Víðir Reynisson og Þorgrímur Þráinsson glíma á æfingu íslenska landsliðsins …
Víðir Reynisson og Þorgrímur Þráinsson glíma á æfingu íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson er með kórónuveiruna en þetta staðfesti hann í samtali við Vísi.is í dag.

Þorgrímur hefur verið hluti af starfsliði A-landsliðs karla undanfarin ár og af þeim sökum er allt starfslið íslenska karlalandsliðsins nú komið í sóttkví.

„Ég er blóraböggullinn,“ sagði Þorgrímur brattur í samtali við Vísi.is í dag.

Ég er bara feginn að þetta sé ég en ekki einhver annar,“ bætti Þorgrímur við en hann segist vera stálsleginn og finni ekki fyrir neinum einkennum.

Erik Hamrén, þjálfari Íslands, og Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari liðsins, eru báðir komnir í sóttkví og verða því ekki á hliðarlínunni á morgun þegar Belgar koma í heimsókn á Laugardalsvöll í Þjóðadeild UEFA.

Eins og staðan er í dag er ekkert sem bendir til þess að leikurinn geti ekki farið fram þar sem enginn grunur leikur á um að leikmaður í íslenska hópnum sé með veiruna.

mbl.is