Komið út í einhverja þvælu

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna, til vinstri.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna, til vinstri. Ljósmynd/@LeiknirRvkFC

„Þetta var mikil gleði tilfinning þegar það var tilkynnt að við færum upp um deild,“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari knattspyrnuliðs Leiknis úr Reykjavík, í samtali við mbl.is í dag.

KSÍ ákvað að hætta keppni á Íslandsmótinu 2020 í gær en Leiknir var með 42 stig í öðru sæti 1. Deildarinnar, Lengjudeildarinnar, þegar ákveðið var að hætta keppni og leikur því í efstu deild í annað sinn í sögu félagsins næsta sumar.

„Maður var búinn að taka ákvörðun um að fagna þessu vel og innilega, sama hvað, enda mikið afrek hjá okkur. Ég er bæði glaður og stoltur af liðinu.

Maður er búinn að vera með hnút í maganum núna í einhvern mánuð varðandi framhaldið á mótinu og þessi óvissa var óþægileg svo maður segi það nú bara eins og það er.

Ég er var innstilltur á að mótið yrði klára og var mjög sáttur með það. Við ætluðum að reyna vinna deildina og menn voru virkilega peppaðir í það.“

Leiknismenn voru í harðri baráttu við Fram og Keflavík um …
Leiknismenn voru í harðri baráttu við Fram og Keflavík um sæti í efstu deild. mbl.is/Árni Sæberg

Erfitt sumar

Sigurður tók við Leiknisliðinu um mitt síðasta sumar og var því á sínu fyrsta heila tímabili sem aðalþjálfari liðsins en hann er 35 ára gamall og hefur verið að stíga sín fyrstu skref í þjálfun undanfarin ár.

„Þetta er búið að vera erfitt sumar, bæði hjá sjálfum mér og auðvitað leikmönnum líka. Að halda fókus á verkefnið var virkilega krefjandi líka. Sérstaklega í lokin þegar það kom upp að það ætti mögulega að flauta mótið af.

Þá þurfti maður að halda mönnum á tánum og reyna halda þeim frá umræðunni ef svo má segja svo enginn myndi missa hausinn. Það hefur tekist nokkuð vel og menn voru virkilega gíraðir fyrir restinni af mótinu og tilbúnir að spila.“

Leiknismenn léku síðast í efstu deild árið 2015.
Leiknismenn léku síðast í efstu deild árið 2015. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Vildi klára mótið

Sigurður ítrekar að Leiknismenn hafa alltaf viljað klára mótið á knattspyrnuvellinum.

„Það vildu allir og hafa allir alltaf viljað klára mótið hjá Leikni. Það hefði verið töluvert skemmtilegra en þetta var líka komið út í einhverja þvælu, bæði umræðan og allt í kringum hana.

Fyrst að mótið var flautað af þá fannst okkur við eiga það skilið að fara upp um deild og við vorum alltaf staðráðnir í láta það ekki hafa áhrif á fögnuðinn að mótið hafi verið blásið af.“

Leiknismenn leika í efstu deild í annað sinn og Sigurður viðurkennir að hann sé farinn að sjá fyrir sér næsta sumar

„Hugurinn hefur klárlega reikað aðeins um hvernig næsta sumar verður og hvernig maður á að gera hlutina.

Undirbúningurinn er ekki hafinn en við munum mæta tilbúnir til leiks næsta sumar, það er klárt,“ bætti Sigurður við í samtali við mbl.is.

mbl.is