Staðfesta kaupin á KR-ingnum

Finnur Tómas Pálmason og Rikard Norling þjálfari Norrköping.
Finnur Tómas Pálmason og Rikard Norling þjálfari Norrköping. Ljósmynd/Norrköping

Sænska knattspyrnufélagið Norrköping staðfesti í dag að gengið hefði verið frá samningum við Finn Tómas Pálmason, miðvörðinn unga, sem það hefur keypt af KR-ingum.

Finnur er nítján ára gamall og hefur verið í stóru hlutverki í varnarleik KR undanfarin tvö ár og varð Íslandsmeistari með liðinu 2019.

„Hann er ungur leikmaður sem hefur fest sig í sessi í aðalliði félags sem hefur orðið landsmeistari og spilað í Evrópukeppni. Hann hefur sýnt að hann getur spilað á háu getustigi og við erum afar ánægðir með að fá hann í okkar raðir," segir Rikard Norling þjálfari Norrköping á heimasíðu félagsins.

„Ég er mjög ánægður með að vera komin hingað. Margir Íslendingar hafa leikið með Norrköping og ég hef heyrt margt gott um félagið. Ég vil taka framförum og hjálpa félaginu að ná langt," segir Finnur á heimasíðunni.

mbl.is