Alltaf sömu gæðin í Kópavoginum

Andrea Rán Hauksdóttir í leik gegn Þrótti í Reykjavík í …
Andrea Rán Hauksdóttir í leik gegn Þrótti í Reykjavík í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þá vantaði miðjumann og Berglind Björg [Þorvaldsdóttir] hafði samband við mig til að byrja með til þess að kanna hvort ég hefði áhuga á því að koma til Frakklands,“ sagði Andrea Rán Hauksdóttir í samtali við mbl.is í dag.

Andrea Rán hefur skrifað undir lánssamning við  franska 1. deildarfélagið Le Havre sem gildir út aprílmánuð en hún verður þriðji Íslendingurinn í herbúðum liðsins ásamt þeim Berglindi Björgu og Önnu Björk Kristjánsdóttur.

„Eftir að Berglind hafði samband við mig gerðust hlutirnir mjög hratt.  Ég var svo í sambandi við þjálfara Le Havre og þjálfarateymið úti í framhaldi af samtali mínu við Berglindi og þeir vildu fá mig út sem allra fyrst.

Það er alltaf ákveðið ferli að skipta um félag en ég er komin út til Frakklands núna og reikna með því að spila minn fyrsta leik fyrir félagið á næstu dögum, þegar ég hef fengið leikheimild,“ bætti Andrea við.

Berglind Björg Þorvalsdóttir gekk til liðs við Le Havre síðasta …
Berglind Björg Þorvalsdóttir gekk til liðs við Le Havre síðasta sumar. Ljósmynd/Le Havre

Nýtt verkefni í Frakklandi

Franska deildin er ein sú sterkasta í Evrópu í dag en Le Havre er í neðsta sæti deildarinnar með 4 stig, þremur stigum frá öruggu sæti.

„Ég hef fylgst aðeins með deildinni í Frakklandi í gegnum tíðina og sérstaklega Íslendingunum sem þar spila. Þetta er virkilega sterk deild og það sést kannski best á leikmönnunum sem spila í henni. Ég er virkilega spennt fyrir þessu og lít fyrst og fremst á þetta sem frábært tækifæri fyrir mig.

Ég er líka mjög spennt fyrir því að taka þátt í botnbaráttunni enda höfum við allt að vinna og hver leikur er algjör úrslitaleikur fyrir okkur. Þetta er algjörlega nýtt fyrir manni og eitthvað sem maður hefur ekki upplifað áður.

Það hefur alltaf verið draumur hjá manni, alveg frá því að maður var lítil stelpa, að fara út í atvinnumennsku. Að spila í Frakklandi mun líta vel út á ferilskránni og þetta er líka frábær gluggi til þess að sýna sig og sanna fyrir öðrum þjálfurum og liðum.“

Sveindís Jane Jónsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir eru horfnar á braut …
Sveindís Jane Jónsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir eru horfnar á braut úr Kópavoginum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þurfa aðrir að stíga upp

Andrea snýr aftur til Íslands í maí og er spennt fyrir komandi keppnistímabili með Breiðabliki sem hefur misst þrjá sterka leikmenn frá síðasta sumri.

„Mér líst virkilega vel á hópinn sem við erum með þótt við höfum að sjálfsögðu misst stóra karaktera líka. Á sama tíma þurfa bara aðrir að stíga upp og það kemur maður í manns stað.

Breiðablik hefur alltaf haft mikla breidd og það eru margar ungar stelpur í kringum liðið sem eru virkilega góðar. Það er einhvern veginn þannig að gæðin hjá Breiðabliki minnka aldrei, sama hversu marga leikmenn liðið missir,“ bætti Andrea við í samtali við mbl.is.

mbl.is