Skagakonan komin í fámennan hóp

Hallbera Guðný Gísladóttir hefur spilað 118 landsleiki og 300 deildaleiki …
Hallbera Guðný Gísladóttir hefur spilað 118 landsleiki og 300 deildaleiki á ferlinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í knattspyrnu, komst í dag í fámennan hóp íslenskra knattspyrnukvenna þegar hún lék með liði sínu AIK í Stokkhólmsslag gegn Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni.

AIK fagnaði þar sætum sigri, 2:1, en þetta var 300. deildaleikur Hallberu á ferlinum, samanlagt á Íslandi, í Svíþjóð og á Ítalíu, og hún er aðeins sjöunda íslenska knattspyrnukonan sem nær þeim áfanga.

Hallbera leikur nú sitt átjánda tímabil í meistaraflokki en hún spilaði þó fyrsta deildaleikinn óvenjuseint, 18 ára gömul með ÍA árið 2004. Ástæðan fyrir því var sú að ÍA var ekki með meistaraflokk kvenna á árunum 2001 til 2003.

Hún spilaði með meistaraflokki ÍA árin 2004 og 2005, í 1. deild og úrvalsdeild, en lék síðan með Val 2006-2011, með Piteå í Svíþjóð 2012-2013 og með Torres á Ítalíu fyrri hluta ársins 2014. Hún lauk því tímabili með Val en spilaði síðan með Breiðabliki 2015 og 2016.

Árið 2017 fór Hallbera aftur í sænsku úrvalsdeildina og lék með Djurgården en sneri heim á ný og lék með Val 2018 til 2020. Hún fór síðan til Svíþjóðar í þriðja sinn í vetur og leikur nú með AIK sem er nýliði í úrvalsdeildinni.

Hallbera lék 29 deildaleiki fyrir ÍA en hefur síðan leikið 157 leiki með Val, 40 með Piteå, 13 með Torres, 36 með Breiðabliki, 22 með Djurgården og nú þrjá með sínu nýja félagi, AIK. Í þessum leikjum hefur Hallbera skorað 52 mörk, þar af 32 fyrir Val, 16 fyrir ÍA, tvö fyrir Breiðablik, eitt fyrir Piteå og eitt fyrir Torres.

Auk þessara 300 deildaleikja hefur Hallbera leikið 118 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og er fjórða leikjahæsta landsliðskona þjóðarinnar frá upphafi.

Þær sem áður hafa náð 300 deildaleikjum eru Katrín Jónsdóttir (336), Hólmfríður Magnúsdóttir (323), Sif Atladóttir (306), Sandra Sigurðardóttir (305), Guðbjörg Gunnarsdóttir (301) og Þórunn Helga Jónsdóttir (300).

mbl.is