Rúnar Páll og Þorvaldur voru með svipaða hugsun í fótbolta

Daníel Laxdal fyrirliði Stjörnunnar.
Daníel Laxdal fyrirliði Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér fannst við alveg berjast en áttum bara í smá basli með að ná upp spili og þurfum bara að grípa til gömlu klisjunnar að við þurfum allir að gera betur og setja pressu á okkur fyrir næsta leik sem við verðum að vinna,“ sagði Daníel Laxdal fyrirliði Stjörnunnar eftir 2:0 fyrir Keflavík suður með sjó í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta.

Þorvaldur Örlygsson stýrir nú einn liði Stjörnunnar eftir að Rúnar Páll Sigmundsson hætti skyndilega störfum en Daníel hefur lengi verið lykilmaður Garðbæinga og unnið með Rúnari Páli. Telur fyrirliðinn að það verði miklar breytingar eftir þessar sviptingar með þjálfara. „Við höfðum ekki mikinn tíma til að breyta neinu fyrir þennan leik svo það voru ekki miklar breytingar. Rúnar Páll og Þorvaldur voru með svipaða hugsun í fótbolta svo ég býst við þetta verði svipað og áður,“ bætti fyrirliðinn við.

mbl.is