Flautumark í Garðabæ - ÍR sló ÍBV úr leik

Emil Atlason og Brynjar Ingi Bjarnason í baráttunni í Garðabænum …
Emil Atlason og Brynjar Ingi Bjarnason í baráttunni í Garðabænum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elfar Árni Aðalsteinsson reyndist hetja KA þegar liðið heimsótti Stjörnuna í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarnum, á Samsung-völlinn í Garðabæ í kvöld.

Leiknum lauk með 2:1-sigri KA en Elfar Árni skoraði sigurmark leiksins þegar fjórar mínútur voru liðnar af uppbótartíma síðari hálfleiks.

Emil Atlason kom Stjörnunni yfir á 57. mínútu en Sebastiaan Brebels jafnaði metin fyrir KA á 86. mínútu.

Garðbæingar voru vægast sagt ósáttir með sigurmark Akureyringa enda virtist boltinn farinn aftur fyrir endamörk þegar Sveinn Margeir Hauksson ýtti boltanum fyrir markið á Elfar Árna sem skoraði í tómt markið.

Þá skaut Sergine Fall Vestra áfram í sextán liða úrslitin en hann skoraði sigurmark Vestfirðinga á 60. mínútu í 2:1-sigri gegn Aftureldingu á Fagverksvellinum að Varmá í Mosfellsbæ.

Pétur Bjarnason kom Vestra yfir á 14. mínútu áður en Valgeir Árni Svansson jafnaði metin fyrir Aftureldingu á 41. mínútu.

Þá vann ÍR 3:0-sigur gegn ÍBV á Hertz-vellinum í Breiðholti og KFS, sem er í neðsta sæti í 3. deild, gerði sér lítið fyrir og vann 4:2-sigur gegn Víkingi frá Ólafsvík á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.

mbl.is