„Komið meira „attitjúd“ í okkur“

Gísli Eyjólfsson í leiknum í kvöld.
Gísli Eyjólfsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Þetta var hörkuleikur og við fáum alltaf hörkuleik á móti KR. Þeir eru búnir að vera með yfirhöndina í seinustu skipti en í kvöld fannst mér við alveg vera með þá,“ sagði Gísli Eyjólfsson, sóknartengiliður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir að liðin gerðu 1:1-jafntefli í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Vesturbænum í kvöld.

„Mér fannst leikplanið mjög vel sett upp og við náðum að fylgja því eftir. Við vorum bara klaufar að klúðra tveimur dauðafærum í byrjun leiks. Ef við hefðum komist yfir held ég að við hefðum siglt þremur stigum heim,“ bætti hann við.

Breiðablik hefur gengið vel að undanförnu og sótt fjölda stiga í deildinni auk þess að vinna tvo góða sigra gegn Racing Union frá Lúxemborg í 1. umferð Sambandsdeildar Evrópu.

Eftir fjögur töp í röð í deild og bikar gegn KR sagði Gísli Blika búa yfir meira sjálfstrausti en oft áður og því náð að knýja fram jöfnunarmark í kvöld, andstætt því sem hefði verið í tapleikjunum fjórum gegn KR.

„Sjálfstraust spilar örugglega mikið inn í þetta. Þegar maður vinnur nokkra leiki í röð detta hlutirnir betur fyrir mann. Við erum búnir að sýna mikinn karakter í síðustu leikjum, til dæmis á móti HK og úti á móti Racing. Það er komið meira „attitjúd“ í okkur, við gefumst ekki upp,“ sagði hann, en í báðum leikjunum sem hann nefndi sneru Blikar tapstöðu í sigur.

Með sigri í kvöld hefði Breiðablik getað saxað verulega á forystu toppliðs Vals eftir að Íslandsmeistararnir töpuðu óvænt gegn botnliði ÍA í gær. Þó á Breiðablik enn leik til góða á Val og getur minnkað forskotið í aðeins eitt stig með sigri í honum.

„Það eru öll lið að misstíga sig eins og við núna en þetta gekk ekki upp í dag. Það hefði verið mjög skemmtilegt ef við hefðum fengið þrjá punkta en mér finnst bara mjög mikil stígandi hjá okkur og liðið hefur þroskast mjög mikið á seinustu leikjum,“ sagði Gísli að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert