Kominn með leikheimild en spilar ekki í kvöld

Ragnar Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu síðasta haust.
Ragnar Sigurðsson í leik með íslenska landsliðinu síðasta haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Ragnar Sigurðsson er kominn með leikheimild hjá Fylki og mætti því spila með liðinu í kvöld þegar það heimsækir KR á Meistaravelli í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

Hann er hins vegar ekki leikfær enn og hefur raunar ekki æfingar með liðinu fyrr en í þessari viku. Það staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net í síðustu viku.

„Ég er ekkert búinn að vera æfa fótbolta í tvo eða þrjá mánuði þannig að ég get ekki haldið því fram að ég sé í leikformi akkúrat núna. Ég er búinn að halda mér ágætlega við, búinn að vera hlaupa mikið í Köben og búinn að vera í ræktinni,“ sagði hann við Fótbolta.net um leikform sitt.

Ragnar sagðist í samtalinu telja að hann fengi ekki leikheimild með Fylki fyrr en í ágúst vegna félagaskipta sinna til Rukh Lviv í Úkraínu fyrr á árinu. Sú er hins vegar ekki raunin.

Hrafnkell Helgi Helgason, formaður Meistaraflokksráðs Fylkis, staðfesti það á Facebook-síðu sinni í dag að hann hafi fengið það staðfest frá Knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, fyrir liðna helgi að Ragnar væri þegar kominn með leikheimild.

mbl.is