„Við viljum berjast um þann stóra“

Kristinn Jónsson með boltann í fyrri leik KR og Fylkis …
Kristinn Jónsson með boltann í fyrri leik KR og Fylkis í deildinni í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bakvörðurinn sprettharði, Kristinn Jónsson, hefur verið drjúgur með KR-ingum í júlí en Vesturbæingar unnu þrjá af fjórum leikjum sínum í mánuðinum, gegn KA, Keflavík og Fylki, og skildu jafnir við Breiðablik. Eftir slitrótta byrjun á Íslandsmótinu hafa KR-ingar fært sig upp á skaftið og eru nú ekki langt frá því að blanda sér af alvöru í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn sem þeir misstu í hendur erkifjenda sinna í Val á síðustu leiktíð. Kristinn er leikmaður júlímánaðar hjá Morgunblaðinu.

Eftir 4:0-sigurinn á Fylki á Meistaravöllum í síðustu umferð, sem var einn besti leikur Vesturbæinga á árinu, er KR í 3. sæti úrvalsdeildarinnar eftir 14 leiki, með 25 stig, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Reykjavíkurstórveldin mætast einmitt í næsta leik, á Hlíðarenda miðvikudaginn 4. ágúst.

„Þetta voru bestu 90 mínúturnar okkar í sumar, við höfum byrjað leiki mjög vel án þess að halda það út allan tímann. Þannig að þetta var klárlega besti leikurinn okkar og sérstaklega á heimavelli,“ sagði Kristinn í samtali við Morgunblaðið. KR-ingar töpuðu ekki heimaleik á leið sinni að Íslandsmeistaratitlinum 2019 en síðan þá hafa þeir spilað 18 deildarleiki í Frostaskjóli og ekki unnið nema sex.

„Ég held að Atli [Sigurjónsson] hafi orðað þetta ágætlega í viðtali um daginn: heimavöllur er enginn heimavöllur án áhorfenda. Ég spila betur þegar fleiri KR-ingar eru á vellinum, það er alveg klárt mál, þeir leika stórt hlutverk í þessu,“ útskýrði Kristinn en kórónuveirufaraldurinn hefur sett sinn svip á áhorfendapalla um allt land síðasta rúma árið. KR-ingar hafa í gegnum árin oftast verið vel studdir á heimavelli, sér í lagi þegar vel gengur. „Ég held að það sé gegnumgangandi alls staðar á Íslandi. Ef þú ert að spila skemmtilegan fótbolta þá kemur fleira fólk á völlinn.“

KR vann tvo af fyrstu sex leikjum sínum og var um tíma átta stigum frá toppsætinu. Júlí hefur hins vegar gefið Vesturbæingum vel og sigur gegn Val í næsta leik myndi hleypa mikilli spennu í toppbaráttuna. Kristinn segir þó ekkert róttækt hafa gerst frá upphafi móts.

Kraftmeiri og skilvirkari

„Það hefur svo sem ekkert breyst, við höfum bara jafnt og þétt verið að bæta okkur eftir því sem hefur liðið á mótið. Það er meiri kraftur í okkur og við erum skilvirkari á vellinum, bæði í vörn og sókn.

Viðtalið við Kristin má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert