„Ég kalla eftir því að fleiri skori mörk“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson kemur skilaboðum áleiðis á Akureyri í kvöld.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson kemur skilaboðum áleiðis á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Sigurður Ragnar Eyjólfsson var að vonum svekktur eftir 2:1-tap gegn KA í Pepsi Max-deild karla í kvöld. KA-menn gerðu sigurmarkið þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum eftir að bæði lið höfðu fengið aragrúa af sénsum til að skora.

Sigurður var þó ekki bara ósáttur eftir leik heldur sá hann margt gott í spilamennsku sinna manna. „Við fengum klárlega okkar tækifæri og það var margt mjög gott hjá okkur í leiknum. Það er ekki alltaf allt slæmt þegar maður tapar. Við þurfum samt að fara betur yfir það hvernig við fengum á okkur þessi mörk því mér fannst við gefa þeim þau ótrúlega auðveldlega. Hallgrímur Mar spilaði frábærlega í dag og er með ótrúleg gæði en í fyrra markinu gefum við boltann mjög klaufalega frá okkur inni á miðsvæðinu, þeir sækja hratt á okkur og skora. Í seinna markinu fá þeir allt of margar snertingar við teiginn okkar og inni í honum, komast í skotfæri og skora. Aðdragandinn alls ekki nógu góður í hvorugu markinu.“

„Það er jákvætt að við komum til baka eftir að hafa lent undir á erfiðum útivelli. Við spiluðum þéttan og góðan varnarleik í seinni hálfleik og fengum okkar færi. Það vantaði bara herslumuninn.“

Joey Gibbs hefur raðað inn mörkum í sumar fyrir Keflvíkinga en Sigurður kallar eftir því að fleiri leggi lóð á vogarskálina. „Joey Gibbs hefur staðið sig frábærlega en ég kalla eftir því að fleiri skori mörk. Líka þeir sem fá að koma inn á í leikjunum okkar. Það hefur vantað í sumar, að þessi framherji númer tvö hafi líka verið að skora.“ En við þetta má bæta að næstmarkahæsti leikmaður Keflavíkur í sumar er Frans Elvarsson með þrjú mörk. Frans hefur samt sem áður leikið stóran hluta tímabilsins í stöðu miðvarðar.

Keflvíkingar hafa tekið miklum framförum í sumar og hafa leikið betur og betur nánast með hverjum leiknum. „Það hafa orðið mjög miklar framfarir hjá Keflavíkurliðinu í sumar. Við vorum neðstir með þrjú stig eftir sex umferðir en staðan í dag er allt önnur. Síðustu sjö, átta leikir hjá liðinu hafa bara verið mjög fínir. Við höfum verið inni í þessum leikjum, líka á móti mjög sterkum liðum eins og KR á útivelli, Val og Víkingi. Maður sér að við erum að nálgast þessi lið og erum klárlega á réttri leið.“

mbl.is