Hver fær tækifæri gegn Evrópumeisturunum?

Það var góð stemning á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í gær.
Það var góð stemning á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrrverandi samherjar í Breiðabliki gætu skipað framlínu íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið tekur á móti Holland í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.

Þetta er fyrsti leikur íslenska liðsins í riðlakeppninni og jafnframt fyrsti keppnisleikur Íslands undir stjórn Þorsteins Halldórssonar sem tók við þjálfun liðsins í janúar á þessu ári.

Holland, sem er ríkjandi Evrópumeistari, hefur á að skipa gríðarlega öflugu sóknarliði og því má búast við því að íslenska liðið liggi meira til baka og freisti þess að sækja hratt.

Líklegt byrjunarlið Íslands: Sandra Sigurðardóttir - Ingibjörg Sigurðardóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir - Dagný Brynjarsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - Sveindís Jane Jónsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Agla María Albertsdóttir.

Sandra Sigurðardóttir er reynslumesti leikmaðurinn i hópnum.
Sandra Sigurðardóttir er reynslumesti leikmaðurinn i hópnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðjar á reynsluna

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, svo gott sem staðfesti það á blaðamannafundi í höfuðstöðum KSÍ í gær að Sandra Sigurðardóttir yrði í markinu. 

Sandra æfði ekki með liðinu í gær en Þorsteinn sagði orðrétt að hún yrði með í dag. Sandra er reynslumesti markvörðurinn í hópnum og spilaði mjög vel fyrir Íslandsmeistara Vals á leiktíðinni.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir er sú sem gæti veitt Söndru mestu samkeppnina um stöðuna en það verður að teljast líklegt að Þorsteinn veðji á reynsluna gegn jafn sterkum andstæðingum og Hollandi.

Sif Atladóttir kemur að öllum líkindum inn í byrjunarlið íslenska …
Sif Atladóttir kemur að öllum líkindum inn í byrjunarlið íslenska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilfærslur í vörninni

Varnarlega þá er hægt að gefa sér það að Glódís Perla Viggósdóttir verði í byrjunarliðinu. Ingibjörg Sigurðardóttir lék við hlið Glódísar í undankeppni EM í fjarveru Sifjar Atladóttur.

Sif er hins vegar mætt aftur í hópinn og má búast við því að hún og Glódís verði miðvarðapar Íslands í kvöld. Ingibjörg mun að öllum líkindum færa sig út í bakvarðastöðuna þar sem hún lék meðal annars í lokakeppni EM 2017 í Hollandi.

Þá má leiða að því líkur að Þorsteinn leggi traust sitt á reynsluna enn og aftur og Hallbera Guðný Gísladóttir verði í stöðu vinstri bakvarðar en valið stendur á milli hennar og Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur.

Landsliðsfyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrst á blað hjá þjálfaranum.
Landsliðsfyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrst á blað hjá þjálfaranum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrst á blað hjá þjálfaranum

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verður með fyrirliðabandið í fjarveru Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og hún getur svo gott sem gengið að byrjunarliðssætinu vísu enda líklegast fyrst á blað hjá landsliðsþjálfaranum.

Dagný Brynjarsdóttur verðu að öllum líkindum með Gunnhildi á miðjunni en það er ákveðið spurningamerki hver verður fyrir aftan þær tvær. 

Alexandra Jóhannsdóttir hefur spilað á miðsvæðinu í undanförnum leikjum en hún hefur ekki átt fast sæti í liði Eintracht Frankfurt frá því hún gekk til liðs við félagið í janúar á þessu ári. 

Andrea Rán Hauksdóttir gæti einnig leyst stöðuna, sem og Karítas Tómasdóttir, en Alexandra er þó líklegust til þess að spila gegn Hollandi.

Agla María Albertsdóttir gæti fengið tækifæri í byrjunarliðinu.
Agla María Albertsdóttir gæti fengið tækifæri í byrjunarliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir möguleikar í stöðunni

Sveindís Jane Jónsdóttir verður í byrjunarliðinu, hvort sem það verður í fremstu víglínu eða á kantinum. Það er engin Elín Metta Jensen í hópnum vegna meiðsla og því gæti Berglind Björg Þorvaldsdóttir fengið tækifæri í byrjunarliðinu.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur lítið sem ekkert spilað með Bayern München á tímabilinu og því líklegt að Agla María Albertsdóttir verði á vinstri kantinum, Sveindís á þeim hægri og Berglind Björg í fremstu víglínu.

Þorsteinn gæti einnig ákveðið að spila með Sveindísi fremsta og þær Öglu Maríu og Karólínu á sitthvorum kantinum.

Hvort sem það verður Berglind eða Karólína sem spilar þá þekkjast allir þessir leikmenn mög vel og þær hafa allar spilað fyrir Þorstein áður sem er jákvætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert