Hver fær tækifæri gegn Evrópumeisturunum?

Það var góð stemning á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í gær.
Það var góð stemning á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrrverandi samherjar í Breiðabliki gætu skipað framlínu íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið tekur á móti Holland í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í kvöld.

Þetta er fyrsti leikur íslenska liðsins í riðlakeppninni og jafnframt fyrsti keppnisleikur Íslands undir stjórn Þorsteins Halldórssonar sem tók við þjálfun liðsins í janúar á þessu ári.

Holland, sem er ríkjandi Evrópumeistari, hefur á að skipa gríðarlega öflugu sóknarliði og því má búast við því að íslenska liðið liggi meira til baka og freisti þess að sækja hratt.

Líklegt byrjunarlið Íslands: Sandra Sigurðardóttir - Ingibjörg Sigurðardóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir - Dagný Brynjarsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - Sveindís Jane Jónsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Agla María Albertsdóttir.

Sandra Sigurðardóttir er reynslumesti leikmaðurinn i hópnum.
Sandra Sigurðardóttir er reynslumesti leikmaðurinn i hópnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðjar á reynsluna

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, svo gott sem staðfesti það á blaðamannafundi í höfuðstöðum KSÍ í gær að Sandra Sigurðardóttir yrði í markinu. 

Sandra æfði ekki með liðinu í gær en Þorsteinn sagði orðrétt að hún yrði með í dag. Sandra er reynslumesti markvörðurinn í hópnum og spilaði mjög vel fyrir Íslandsmeistara Vals á leiktíðinni.

Cecilía Rán Rúnarsdóttir er sú sem gæti veitt Söndru mestu samkeppnina um stöðuna en það verður að teljast líklegt að Þorsteinn veðji á reynsluna gegn jafn sterkum andstæðingum og Hollandi.

Sif Atladóttir kemur að öllum líkindum inn í byrjunarlið íslenska …
Sif Atladóttir kemur að öllum líkindum inn í byrjunarlið íslenska liðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilfærslur í vörninni

Varnarlega þá er hægt að gefa sér það að Glódís Perla Viggósdóttir verði í byrjunarliðinu. Ingibjörg Sigurðardóttir lék við hlið Glódísar í undankeppni EM í fjarveru Sifjar Atladóttur.

Sif er hins vegar mætt aftur í hópinn og má búast við því að hún og Glódís verði miðvarðapar Íslands í kvöld. Ingibjörg mun að öllum líkindum færa sig út í bakvarðastöðuna þar sem hún lék meðal annars í lokakeppni EM 2017 í Hollandi.

Þá má leiða að því líkur að Þorsteinn leggi traust sitt á reynsluna enn og aftur og Hallbera Guðný Gísladóttir verði í stöðu vinstri bakvarðar en valið stendur á milli hennar og Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur.

Landsliðsfyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrst á blað hjá þjálfaranum.
Landsliðsfyrirliðinn Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrst á blað hjá þjálfaranum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrst á blað hjá þjálfaranum

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verður með fyrirliðabandið í fjarveru Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og hún getur svo gott sem gengið að byrjunarliðssætinu vísu enda líklegast fyrst á blað hjá landsliðsþjálfaranum.

Dagný Brynjarsdóttur verðu að öllum líkindum með Gunnhildi á miðjunni en það er ákveðið spurningamerki hver verður fyrir aftan þær tvær. 

Alexandra Jóhannsdóttir hefur spilað á miðsvæðinu í undanförnum leikjum en hún hefur ekki átt fast sæti í liði Eintracht Frankfurt frá því hún gekk til liðs við félagið í janúar á þessu ári. 

Andrea Rán Hauksdóttir gæti einnig leyst stöðuna, sem og Karítas Tómasdóttir, en Alexandra er þó líklegust til þess að spila gegn Hollandi.

Agla María Albertsdóttir gæti fengið tækifæri í byrjunarliðinu.
Agla María Albertsdóttir gæti fengið tækifæri í byrjunarliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir möguleikar í stöðunni

Sveindís Jane Jónsdóttir verður í byrjunarliðinu, hvort sem það verður í fremstu víglínu eða á kantinum. Það er engin Elín Metta Jensen í hópnum vegna meiðsla og því gæti Berglind Björg Þorvaldsdóttir fengið tækifæri í byrjunarliðinu.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir hefur lítið sem ekkert spilað með Bayern München á tímabilinu og því líklegt að Agla María Albertsdóttir verði á vinstri kantinum, Sveindís á þeim hægri og Berglind Björg í fremstu víglínu.

Þorsteinn gæti einnig ákveðið að spila með Sveindísi fremsta og þær Öglu Maríu og Karólínu á sitthvorum kantinum.

Hvort sem það verður Berglind eða Karólína sem spilar þá þekkjast allir þessir leikmenn mög vel og þær hafa allar spilað fyrir Þorstein áður sem er jákvætt.

mbl.is