Ekkert lið á Íslandi vill spila gegn okkur

Nikolaj Hansen fagnar eftir að hafa komið Víkingi yfir gegn …
Nikolaj Hansen fagnar eftir að hafa komið Víkingi yfir gegn Leikni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nikolaj Hansen varð markakóngur úrvalsdeildar karla í fótbolta 2021 með talsverðum yfirburðum, auk þess sem hann skoraði fyrra markið og lagði upp það seinna þegar Víkingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með sigrinum á Leikni á Víkingsvellinum, 2:0, í dag.

Hansen er að ljúka sínu sjötta tímabili á Íslandi og verður að óbreyttu áfram næstu árin, svo framarlega sem markaskor hans fyrir Víkinga í ár verður ekki til þess að þeir þurfi að selja hann úr landi.

Hann sagði við mbl.is eftir sigurinn í dag og afhendingu Íslandsbikarsins að tímabilið hefði í heild sinni verið frábært.

„Það getur ekki verið betra. Verða Íslandsmeistari og markakóngur, tapa aðeins tveimur leikjum, þetta var stórkostlegt keppnistímabil. Ekki bara fyrir mig, heldur fyrst og fremst fyrir liðið sjálft sem hefur staðið sig frábærlega í ár. Að vinna svona erfiða deild er mikið afrek því til þess þarf að ná að spila vel heilt keppnistímabil," sagði danski sóknarmaðurinn sem skoraði 16 mörk í deildinni og varð langmarkahæstur.

Spurður hvað hefði breyst hjá Víkingsliðinu frá því í fyrra sagði Hansen að það hefði verið margt.

„Mér hafði sjálfum ekki gengið vel undanfarin tvö ár en eins og liðið spilaði núna hentaði mér frábærlega. Það erfitt að spila á móti okkur. Við fáum fá mörk á okkur, við sköpum okkur færi, við skorum mörk, við erum góðir í að brjóta upp leiki, svo þetta var frábært í heildina. Svo er liðsandinn frábær, í hvert skipti sem við göngum til leiks höfum við á tilfinningunni að við munum sigra.

Ekkert lið á Íslandi vill spila gegn okkur – það er erfitt að spila við okkur því við sköpum okkur alltaf færi og skorum alltaf mörk. Við erum með með góða vörn og markverði sem hafa bjargað okkur nokkrum sinnum. Þetta var stundum vandamál í fyrra en markvarslan og varnarleikurinn hafa  verið í hæsta gæðaflokki hjá okkur í ár.

Og þú ferð sjálfur frá því að skora eitt mark í deildinni í fyrra í að skora sextán mörk í ár. Hvernig stóð á því?

„Munurinn liggur aðallega í því hvernig liðið spilaði. Við förum mikið upp kantana, og ég veit að ég þarf að koma mér inn í vítateiginn. Þá veit ég að ég fæ góðar fyrirgjafir eins og við sáum í dag. Fyrra markið okkar kom eftir frábæra fyrirgjöf. Ég þurfti ekki að gera annað en að skalla boltann. Vörnin gat ekkert gert því þetta  var svo frábær sending.

Öll mín mörk í ár hafa komið úr vítateignum. Ég er ekki með besta hægri fót í heimi, ég á ekki þrumufleyga í markvinklana. Ég þarf bara að fá sendingar. Þegar góðar sendingar koma verð ég að vera mættur á réttan stað.“

Leikurðu áfram með Víkingi?

„Já, að öllu óbreyttu. Ég skrifaði undir nýjan samning fyrir þetta tímabil til þriggja ára og er því samningsbundinn út árið 2023, á tvö tímabil eftir. Auðvitað vekur alltaf athygli þegar maður á tímabil eins og þetta og skorar mikið af mörkum. Ég verð að sjálfsögðu að horfa í kringum mig, hvort það skilar einhverju. Allir vilja fá markaskorara.

En ég er ánægður hér hjá Víkingi, mér líður vel hjá félaginu og er í frábærri vinnu á frístundaheimili þar sem ég elska að vinna með krökkunum. Það er frábært að vera í þannig vinnu með fótboltanum, miklu betra en að vera heima allan daginn og bíða eftir næstu æfingu," sagði Nikolaj Hansen og hélt síðan áfram að dansa og syngja með samherjum sínum í búningsklefa Víkinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert