Tap fyrir París en góð frammistaða

Agla María Albertsdóttir stingur sér framhjá Amöndu Ilestedt miðverði PSG …
Agla María Albertsdóttir stingur sér framhjá Amöndu Ilestedt miðverði PSG en skot hennar úr dauðafæri var varið. mbl.is/Unnur Karen

Franska meistaraliðið París Saint-Germain hafði betur 2:0 gegn bikarmeisturum Breiðabliks í B-riðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í kvöld.

Var þetta fyrsti leikurinn hjá íslensku knattspyrnuliði í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. 

Hin tvö liðin í riðlinum eru Zhytlobud Kharkiv frá Úkraínu og Real Madrid frá Spáni en viðureign þeirra hófst í Úkraínu klukkan 16.45 og lauk með naumum sigri Real Madrid, 1:0. 

París SG var 1:0 yfir að loknum fyrri hálfleik með marki Leu Khelifi á 18. mínútu. Fyrirliðinn Grace Geyoro innsiglaði sigurinn á 89. mínútu. 

Frammistaða Blika var góð í kvöld að langflestu leyti. Leikurinn var miklu jafnari heldur en heimaleikurinn gegn París SG fyrir tveimur árum síðan. Breiðablik var síst lakara liðið fyrsta hálftímann eða svo. 

Breiðablik hefði hæglega getað skorað í fyrri hálfleik. Agla María Albertsdóttir fékk dauðafæri í stöðunni 0:1. Hún komst þá inn í sendingu fyrir utan vítateiginn og keyrði inn í teiginn. Komst ein á móti Barböru Votikovu markverði sem náði að verja skotið frá Öglu Maríu. Votikova hefur þann leið ávana að leika vel á móti Íslendingum en hún varði vítaspyrnuna frægu frá Söru Björk Gunnarsdóttur á Laugardalsvellinum í mikilvægum leik Íslands og Tékklands í undankeppni HM haustið 2018.

Þegar leið á fyrri hálfleik fengu Frakkarnir einnig færi og á 41. mínútu varði Telma Ívarsdóttir virkilega vel frá Kadidiatou Diani sem var í góðu færi hægra megin í teignum. 

Í upphafi síðari hálfleiks átti Breiðablik langa og hættulega sókn en París SG slapp með skrekkinn. Henni lauk með því að Kristín Dís Árnadóttir skallaði yfir opið markið en úr þröngu færi. Votikovu hafði farið út í fyrirgjöf og náði að snerta boltann sem trufaði Kristínu skiljanlega þegar hún mætti boltanum. 

Þegar leið á leikinn áttu leikmenn franska stórliðsins mun meiri orku eftir og gátu auk þess skipt inn á sterkum landsliðskonum. Frammistaða Blika var lengst af mjög góð en á lokakaflanum fjaraði undan. 

Það kom því ekkert sérstaklega á óvart að París SG næði að skora annað mark seint í leiknum og afgreiða málið. 

Parísarliðið er að spila sig saman

París Saint-Germain og Real Madríd eru því efst í riðlinum eftir fyrstu umferðina. Ekki beinlínis lítil og krúttleg sveitalið þar á ferðinni. En Parísarliðið hefði getað tapað stigum í Kópavogi í kvöld ef Blikarnir hefðu náð að nýta þau færi sem sköpuðust. En þannig er það nú bara þegar íslensku liðin mæta stórliðum í Evrópukeppnum. Dauðafærin verða aldrei mörg og það sem býðst þarf að nýta. 

Lið Breiðabliks er komið lengra í að þróa sinn leik en fyrir tveimur árum ef maður miðar við þá viðureign. Jafnvel þótt þá hafi verið þekktari einstaklingar í liði Blika sem nú eru farnar í atvinnumennsku. Leikmenn Breiðabliks hafa meiri líkamlega burði en munurinn á líkamlegum styrk leikmanna var nokkuð áberandi í leiknum árið 2019. Einnig má nefna að fyrir tveimur árum voru leikmenn Breiðabliks feimnar við að halda boltanum innan liðsins þegar þær mættu Parísarliðinu í fyrri leiknum. Strax í upphafi leiksins í kvöld reyndu Blikarnir að spila boltanum eins og hægt var. 

Lið Parísar tók miklum breytingum á milli tímabila. Þjálfaraskipti voru hjá liðinu og ýmsar breytingar einnig á leikmannahópnum. Liðið er því að spila sig saman á nýju keppnistímabili og hætt er við því að liðið verði mun öflugra þegar Breiðablik fer til Parísar. Í því samhengi mætti segja að í kvöld hafi skapast nokkuð gott tækifæri fyrir Breiðablik að ná í stig á móti einu besta liði í Evrópu. 

Það hafðist ekki en íslensku bikarmeistararnir geta borið höfuðið hátt. Sama má segja um þjálfarann Vilhjálm Kára Haraldsson sem stjórnaði Breiðablik í síðasta sinn í kvöld en við starfinu tekur Ásmundur Arnarsson. 

Breiðablik 0:2 París SG opna loka
90. mín. Grace Geyoro (París SG) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert