Óraunverulegt að sjá fulla stúku af fólki

Tiffany McCarty í leik liðanna í kvöld. Ásta er í …
Tiffany McCarty í leik liðanna í kvöld. Ásta er í baksýn, lengst til hægri. mbl.is/Unnur Karen

„Ég er ánægð með frammistöðuna og stolt af liðinu,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, að loknum leiknum gegn franska stórliðinu París Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu á Kópavogsvellinum í kvöld. 

„Ég er ánægð með hvernig við mættum til leiks. Við vorum ekki að pæla í því að þetta væri fimmta besta lið Evrópu. Við mættum þeim af krafti og gáfum þeim hörkuleik. Því fylgir smá svekkelsi að hafa ekki náð að skora og jafna leikinn. Ég er stolt af frammistöðunni. Við vitum hvað við getum gert í þessari keppni og þetta gefur góð fyriheit fyrir framhaldið. Við lögðum upp með ákveðið upplegg sem mér fannst ganga vel. Við vorum þéttar fyrir og skipulagðar. Við töluðum vel saman og gáfum ekki oft færi á okkur. Auk þess gátum við skorað og fengum tækifæri til þess. Ég er ánægð með frammistöðuna og er stolt af liðinu.“

Spurð um hversu langt Breiðablik sé komið í Evrópuboltanum þegar fólk er svekkt eftir naumt tap gegn París Saint-Germain í Meistaradeildinni sagði Ásta þessa stöðu ekki koma sér á óvart. 

„Við erum sigurvegarar í okkur og við viljum vinna leiki. Sama á móti hverjum það er. Það kemur mér ekki á óvart að við séum svekktar yfir því að skora ekki mark á heimavelli. Við ætluðum að sækja stig í kvöld. Það tókst ekki en frammistaðan var góð. Fyrir okkur var þetta að mörgu leyti fín byrjun í riðlakeppninni.“

Ásta Eir Árnadóttir hefur veitt fjölmiðlum ófá viðtölin að undanförnu …
Ásta Eir Árnadóttir hefur veitt fjölmiðlum ófá viðtölin að undanförnu vegna Evrópuleikja og bikarúrslitaleiksins. Þegar sigurinn í bikarkeppninni var í höfn á föstudaginn fékk hún óumbeðið bað hjá systur sinni, og vopnasystur í vörninni, Kristínu Dís. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhorfendur á leiknum í kvöld voru 1.412 og samkvæmt Blikum mun það vera aðsóknarmet á kvennaleik á Kópavogsvelli. 

„Mér fannst gersamlega geggjað að sjá fólkið í stúkunni. Það var óraunverulegt. Maður varð enn spenntari fyrir leiknum þegar maður heyrði í dag að það væri nánast uppselt. Það hjálpar einnig helling að fá þennan stuðning og því var frábært að sjá fullan völl. Ég var mjög ánægð með fólkið sem mætti,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir á blaðamannafundi á Kópavogsvelli í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert